Gengið um Selvogsgötu á sunnudaginn
Boðið verður upp á menningar- og sögutengda gönguferð um Selvogsgotu næstkomandi sunnudag, 24. ágúst kl. 11.
Gangan hefst við slysavarnaskýli á Bláfjallaleið, neðan Grindarskarða.
Til að komast á upphafsstað göngu er ekið frá Hafnarfirði, Krýsuvíkurleið þangað til að komið er að stóru skilti sem á stendur Bláfjöll þar er beygt til vinstri og ekið í um 10 mín. að slysavarnaskýli.
Gengið verður frá Grindarskörðum að Hlíðarvatni í Selvogi. Selvogsgatan er gömul þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Þessi hluti leiðarinnar er um 18 km og tekur um 6-7 tíma. Svæðið býr yfir minjum, mögnuðum sögum og fróðleik sem Sigrún Jónsd. Franklín mun miðla á leiðinni. Gott er að vera með nesti og í góðum skóm. Allir eru á eigin ábyrgð. Ekið með rútu til baka frá Hlíðarvatni. Þátttöku- og rútugjald er kr. 2500.
Gangan er fjórði hluti af sex menningar- og sögutengdum gönguferðum um hluta af gömlu þjóðleiðunum á Reykjanesskaganum sem farnar eru á tímabilinu 1.ágúst – 7. sept. ´08. Boðið er upp á þátttökuseðil þar sem göngufólk safnar stimplum fyrir ferð í hverju sveitarfélagi. Þegar búið verður að fara 3 - 6 ferðir verður dregið úr seðlum og einhverjir þrír heppnir fá góð gönguverðlaun. Dregið verður í sjöttu ferð. Göngufólk er beðið um að muna eftir að taka þátttökuseðla með í ferðir. Sjá nánar um ferðir á www.sjfmenningarmidlun.is
Mynd/elg.