Gengið um heimaslóðir Vilhjálms og Ellýar
-Sagðar sögur af þeim systkinum og tónlistin þeirra flutt
Þau Elmar Þór Hauksson, Arnór B. Vilbergsson og Dagný Gísladóttir hafa vakið athygli fyrir að gera tónskáldum af Reykjanesi góð skil í tónleikaröðinni Söngvaskáld á Suðurnesjunum undanfarin ár í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
Nú er þríeykið á faraldsfæti og mun í kvöld kl 20:00 leiða gönguhóp um heimaslóðir systkinanna Vilhjálms og Ellýar Vilhjálmsbarna í Höfnum undir yfirskriftinni Tónlistin í Höfnum. Gangan er liður í verkefninu Útivist í Geopark, samstarfsverkefnis Bláa Lónsins, HS Orku og Reykjanes Unesco Geopark, sem staðið hefur yfir í sumar og fengið afbragðs viðtökur.
„Okkur langaði að prófa eitthvað nýtt og fannst alveg tilvalið að fara með söngvaskáldin út í fallega náttúruna á Reykjanesi. Hafnir eru líka svo ríkar að eiga systkinin músíkölsku, Ellý og Vilhjálm og okkur langar þess vegna mikið að beina sjónum okkar að þeim í þessari göngu,” útskýrir Dagný.
Eðli málsin samkvæmt verður tónlistin ekki langt undan í þessari göngu, enda systkinin einhverjir ástsælustu tónlistarmenn þjóðarinnar. Þeir Elmar og Arnór ætla að sjá um tónlistarflutning í göngunni og Dagný mun sjá um að segja sögur af systkinunum.
Hún segir að vissulega sé hægt að koma auga á áhrif Reykjanessins á tónlist þeirra systkina og það sé auðvitað gaman að gera því skil.
„Það er engin tilviljun að Villi var ávallt í kántrýtrúboði allan sinn feril, enda ólst hann upp við kanaúutvarpið og bandaríska herstöð svo til í hlaðvarpanum,” bendir Dagný á og heldur áfram; „Svo þekkja allir Ellý og hún hefur náttúrulega verið mikið í sviðsljósinu undanfarið enda áberandi glæsileg söngkona, en færri vita kannski að hún hét einmitt Eldey, eftir eynni hér út af Reykjanesi. Svona tengist þetta allt svona svolítið skemmtilega saman, sagan, tónlistin og náttúran. En svo mun Partýbær reyndar líka aðeins koma við sögu, enda eru fáir sem vita að lag HAM úr Sódóma, er einmitt óður til Hafnar,“ segir Dagný að lokum.
Gangan er sumsé sannkölluð skemmtiganga og tekur um tvo klukkutíma í heildina. Lagt verður af stað frá Kirkjuvogskirkju en eftir það verður gengið að Merkisnesi. Strætó flytur göngufólk aftur að kirkjunni eftir að dagskrá lýkur. Björgunarsveit Suðurnes gengur með hópnum eins og áður og er fólk hvatt til að klæða sig eftir veðri.
Þátttökukostnaður er enginn og allir eru hjartanlega velkomnir