Gengið ótrúlega vel
segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Stefnt að skólaslitum 29. maí eins og til stóð. Unnið að sumarskóla.
„Það varð breyting á nú þegar fjöldamörkunum var lyft aðeins þannig að hægt er að hafa 50 manns í hverju rými. Fyrir allflesta bóklega áfanga verður engin breyting, við munum ljúka þeim með sama hætti og verið hefur undanfarið, þ.e. með fjarkennslu.
Þetta gefur okkur tækifæri til að kalla inn nemendur í verklegu námi sem hafa ekki haft aðstöðu eða búnað heima til að stunda námið. Þeir munu koma inn og geta notað næstu tvær til þrjár vikur til að takast á við og ljúka þeim verklegu áföngum sem þeir hafa ekki getað sinnt,“ segir Kristján Pétur Ásmundson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Einnig koma inn nemendur á tölvufræðibraut til að sinna sérhæfðum áföngum sem krefjast hugbúnaðar sem ekki er aðgangur að nema í skólanum. Nemendur á starfsbraut koma sömuleiðis inn einhverja daga. Við höfum skipt húsnæðinu upp í ákveðin svæði þannig að nemendur geta komið inn á mismunandi stöðum og þannig getum við virt fjarlægðaviðmiðin (tveggja metra regluna) og fjöldann í hverju rými.“
Próf í bóklegum áföngum verða rafræn, aðeins próf í einstaka áföngum verða tekin skriflega í skólanum. Kristján segir stefnt að því að hafa skólaslit 29. maí eins og til stóð upphaflega en eftir er að útfæra með hvaða hætti þau koma til með að vera.
„Það er viðbúið að ekki verði hægt að koma öllum útskriftarnemendum fyrir í salnum í einu, hvað þá gestum. Við erum að skoða nokkra möguleika í samstarfi við útskriftarnema, bæði útfærslu og dagsetningar en það er drjúgur tími enn til stefnu og margt getur breyst á þeim tíma,“ segir Kristján.
– Hvernig hefur starfið gengið í samkomubanni?
„Starfið hefur gengið ótrúlega vel miðað við hvernig þetta bar að. Þetta er búið að vera heilmikið álag, jafnt fyrir kennara sem nemendur. Það er meira en að segja það að breyta kennslunni allt í einu úr hefðbundinni kennslu í kennslustofu og útfæra sem fjarkennslu og ég verð að segja að þetta hefur reynt mjög mikið á kennara og sömuleiðis á nemendur sem í einu vettvangi eru komnir í fjarnám sem þeir skráðu sig ekki í við upphaf annar.
Kennarar hafa þurft að leita leiða til að koma efninu til skila til nemenda gegnum netið og sömuleiðis prófa nemendur. Kennarar og námsráðgjafar hafa verið að hringja í nemendur til að hvetja þau áfram við námið, kanna stöðuna hjá þeim og halda þeim virkum.“
– Hefur orðið brottfall úr námi?
Það er viðbúið að það verði aukið brotthvarf við þessar aðstæður. Það eru ekki allir nemendur sem hafa þann sjálfsaga sem þarf til að sinna námi með þessum hætti. Eftir því sem ég best veit hafa nemendur verið nokkuð virkir í flestum hópum og unnið vel en það er helst þeir yngstu, sem eru á fyrsta þrepi, sem hafa verið óvirkir í náminu til þessa. Nú er lokatörnin að skella á og þá er um að gera að girða sig í brók og taka almennilega á í náminu á lokasprettinum.
Núna erum við að bíða fregna af því hvort við fáum heimild og fjármagn til að starfrækja sumarskóla fyrir nemendur en það kemur vonandi í ljós í þessari viku,“ sagði Kristján.
Kristján Pétur skólameistari FS og Guðlaug Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari.