Gengið á Þorbjörn í blíðskapar veðri
Miðvikudaginn 6. ágúst gekk vaskur hópur á Þorbjörn lagt var af stað frá SBK og ekið einsog leið liggur að Baðsvöllum sem eru í norðurhlíðum Þorbjarnarfells. Á leiðinni sagði leiðsögumaður m.a. frá aldri fjallsins en það er talið með elstu fjöllum á Reykjanesskaganum.
Gengið var einstigi upp fjallið. Þegar komið var upp á fyrstu brún hafði hópurinn fagurt útsýni yfir allan Reykjanesskagann því veðrið og skyggnið var með besta móti einsog venja er í miðvikudagsgöngunum. Eftir myndatökustopp var gengið áfram og stoppað við menjar gömlu ratsjárstöðvarinnar sem var nefnd Vail Camp eftir Raymond T. Vail sem var fyrsti óbreytti bandaríski hermaðurinn sem lést hér á landi. þar voru byggðir alls 14 braggar, rafstöð og ratsjártækjum.
Gengið var þaðan upp í gegnum gjá sem klífur Þorbjörn og nefnist Þjófagjá. Í gjánni má finna mikinn og fjölbreyttan gróður. Nestisstopp var gert á toppi fjallsins og þáðu göngumenn þar góðar veitingar úr nestisskjóðu leiðsögumanns. Gengið var niður af Þorbirni sunnan megin eftir greinilegu og góðu einstigi. Á niðurleiðinni varð hópurinn snortinn af mikilli grósku í náttúrunni, berin voru stór og safarík og blóma/gróður ilmurinn var góður, sumir duttu í berjatínslu en aðrir í blómagreiningu. Það var þægilega þreyttur hópur sem settist inn í rútuna eftir tveggja tíma göngu þetta sólríka kvöld.
Leiðsögumaður var Rannveig L. Garðarsdóttir