Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gengið á Fiskidalsfjall og Húsafjall
Þriðjudagur 1. júlí 2008 kl. 09:58

Gengið á Fiskidalsfjall og Húsafjall

Miðvikudaginn 25. Júní s.l. safnaðist hópur fólks saman við SBK í Grófinni ákveðinn að fara í gönguferð þetta kvöld, áætlað var að ganga á Fiskidalsfjall og Húsafjall. 
Veðrið var einsog best var á kosið bjart og gjóla til að hreinsa útsýnið.
Ekið var af stað um kl 19:00 og stefnt á Grindavík og þaðan upp á Siglubergháls þar sem gangan hófst. Leiðsögumaður fór yfir svokallaðar göngureglur sem felast í því að passa sjálfan sig og alla hina í hópnum.
Gengið var upp á Fiskidalsfjallið sem er 195 m.y.s. af toppi fjallsins er gott útsýni til allra átta yfir Reykjanesskagann. Leiðsögumaður sagði frá nærliggjandi fjöllum og hraunum, 9 km löng Sundhnúkaröðin sást vel, hraunið sem rann úr henni liggur undir Grindavíkurbæ, einnig var gott útsýni yfir dyngjurnar í Vatnsheiðinni en hraunið úr henni skóp allt Hópsnesið. Gengin var brött brekka niður af Fiskidalsfjallinu og þar var sest niður í nestistopp. Leiðsögumaður sagði frá landnámi í Grindavík og einnig var honum tíðrætt um jurt sem nefnist Gullkollur sem vex aðallega á Reykjanesskaga.
Eftir nestisstoppið var lagt af stað upp hlíðina á Húsafjalli þegar hópurinn var hálfnaður upp, flaug rjúpa upp af hreiðri sínu ásamt ótal mörgum ungum sem hlupu um alla hlíðina, ómögulegt var að mynda ungana né rjúpuna því þau voru alveg samlit náttúrunni. Þegar upp var komið sást vel ofan í Hraunsvíkina og Festarfjallið blasti við í allri sinni dýrð. Gengið var niður ávalar hlíðar Húsafjallsins að rútunni sem beið einsog þolinmóður húsbóndi eftir hópnum.
Hitaveita Suðurnesja og Geysir Green Energy hafa staðið fyrir þessum gönguhóp sem hefur verið starfandi síðan um mánaðarmótin apríl - maí. Farnar hafa verið níu gönguferðir, allar undir leiðsögn Rannveigar L. Garðarsdóttur leiðsögumanns. Gengið hefur verið vikulega á miðvikudagskvöldum.
Nú verður breyting á, því næst verður farið miðvikudaginn 9. Júlí þá verður gengið um gömlu Hafnirnar, nefnist gangan Kirkjuhöfn Sandhöfn Farið verður yfir sögu Jóns Thorarensen rithöfunds og prests sem ólst upp í Höfnum og fleira. Prestar Keflavíkurkirkju verða með innlegg í gönguna.
Næstu göngur: 
9. júlí. Kirkjuhöfn – Sandhöfn            *
Gengið verður um sögusvið skáldsagna eftir Jón Thorarensen sem heita Útnesjamenn og Marína. Skoðaðar verða tóftir íbúðarhúsa og kirkju sem fór í eyði vegna sandfoks. Prestar frá Keflavíkurkirkju verða með söguleg innlegg í göngunni.
Gangan tekur 2-3 klst.
23. júlí. Skálafell-Háleyjabunga
Gengið verður frá Hveravöllum þar sem Gunnuhver gýs, þaðan yfir
Skálafell að Háleyjabungu sem er 25m djúp og fallega mynduð dyngja. Jarðfræðingar frá Hitaveitu Suðurnesja/Geysir Green Energy verða með innlegg um jarðfræði.
Gangan tekur 3-4 klst.
6. ágúst. Þorbjörn        **
Þorbjörn er stakt móbergsfell sem stendur norðan Grindavíkur. Fjallið er 243 m.y.s Ofan af fjallinu er gott útsýni yfir mikinn hluta Reykjaness fjallgarðsins.
Gangan tekur 2 - 3 klst.
13. ágúst. Garðskagi – Sandgerði         *
Létt fjöruganga. Sagt verður frá viðburðarríkum atburðum sem tengjast sögu Íslendinga og gerðust á þessum slóðum, einnig verður sagt frá landnámsmönnum sem búsettir voru á þessu svæði.
Gangan tekur 2 - 3 klst.
Nánari upplýsingar gefur Rannveig L. Garðarsdóttir leiðsögumaður sími 893 8900
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024