Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gekk 280 km. og safnaði 600.000 kr.  í Velferðarsjóðinn
Þórunn Þórisdóttir frá Velferðarsjóði Suðurnesja tekur við 600 þúsund krónum frá göngugarpinum Guðlaugu Sigurðardóttur. VF-mynd: pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 4. desember 2020 kl. 11:26

Gekk 280 km. og safnaði 600.000 kr. í Velferðarsjóðinn

Garðkonan og göngugarpurinn Guðlaug Sigurðardóttir færði Velferðarsjóði Suðurnesja 600 þúsund krónur sem hún safnaði í áheitagöngu sem hófst 1. nóvember. Hún afhenti Þórunni Þórisdóttur upphæðina í vikunni en Guðlaug starfar í SI fjölskyldufyrirtækinu sem við sama tækfæri færði Velferðarsjóðnum 400 þúsund krónur.

„Ég hafði ekki hreyft mig nógu mikið í október og ákvað að gera meira í nóvember. Ákvað að ganga 100 kílómetra og þegar ég hafði náð því markmiði ákvað ég að bæta 100 km. við og efna til söfnunar fyrir Velferðarsjóð Suðurnesja sem ég kynnti í gegnum Facebook-síðuna mína. Bað vini mína að heita á mig 2.000 kr. eða 100 krónum á kílómetrann ef ég kláraði það verkefni að fara 200 km. Viðbrögðin voru ótrúlega góð og á endanum urðu þetta alls 280 km. og 600 þúsund krónur söfnuðust,“ sagði Guðlaug eða Gullý eins og hún er jafnan kölluð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þórunn Þórisdóttir hjá Velferðasjóðnum þakkaði kærlega gjöfina og sagði magnað hvað það væri margir Suðurnesjamenn, einstaklingar eins og Gullý og fleiri en líka ýmis samtök og félög, sem hugsuðu til sjóðsins og styrktu hann. Þetta er alltaf ómetanlegt en ekki síst núna,“ sagði Þórunn.

Gullý vildi líka skila þökkum til þeirra fjölmörgu sem studdu hana í áheitagöngunni og einnig þeim sem gengu með henni. Ein af mörgum vinkonum hennar sem hvatti hana áfram í verkefninu og gekk stundum með henni var Ágústa Ásgeirsdóttir, einnig úr Garðinum, en hún var umsjónarmaður áheitareikningsins.