Geislandi veitingakona á Rifi
Það er alveg upplagt að blanda saman gönguferðum og bíltúr þegar dvalist er á Snæfellsnesi. Við gengum á fjöll, drukkum úr ölkeldu en einnig er hægt að synda í heitri ölkeldu á Lýsuhóli. Við drukkum yngjandi vatn úr ánni Sleggjubeina, sem rennur eftir krókaleiðum undan Rauðafeldsgjá, tilkomumikil gjá, sem allir verða að sjá. Það skemmtilega við Snæfellsnes eru einnig allar þjóðsögurnar sem tengjast svæðinu, flestar kynngimagnaðar eins og svæðið sjálft.
Við ókum þennan skemmtilega hring um Snæfellsnes. Stefnan var einnig tekin á kaffihús á Rifi, sem er m.a. í eigu Önnu Þóru, keflvískrar meyjar. Þegar ekið er um Rif, þennan bæ sem á allt sitt undir fiskútgerð, þá sést glöggt að fólki gengur vel sem býr hérna, einhver stemning í plássinu segir manni það. Þetta er greinilega stöndugur útgerðarbær.
Anna Þóra Böðvarsdóttir flutti til Rifs fyrir 26 árum en ætlaði aðeins að dvelja þar í eitt ár með eiginmanninum, sem er ættaður þaðan. Maðurinn sem tældi Önnu Þóru alla þessa leið heitir Lúðvík Smárason, kallaður Lúlli og eiga þau einn uppkominn son.
Elsta húsið á Rifi
Anna Þóra tók okkur fagnandi þegar við kíktum inn á Gamla Rif, kaffihúsið hennar og Siggu vinkonu hennar, sem er þroskaþjálfi í plássinu. Þær ákváðu að opna kaffihúsið fyrir fjórum árum þegar tengdapabbi Siggu, sem á húsið var að velta því fyrir sér hvort ætti að rífa húsið eða gera það upp. Gamla Rif er elsta húsið í plássinu.
„Sem betur fer ákvað hann að gera húsið upp og við Sigga opnuðum hér kaffihús. Létum gamlan draum rætast“, segir Anna Þóra.
Það gustar af henni Önnu og maður sér handbragð hennar alls staðar í kaffihúsinu en Anna Þóra hefur alltaf verið mikil lista- og hannyrðakona. Þær vinkonur reka kaffihúsið saman en hafa alltaf haft lokað á veturna þegar báðar hafa verið að kenna í grunnskólanum. En nú verður þar líklega breyting á. „Við hjónin fórum til Danmerkur fyrir þremur árum, Lúlli lærði byggingatæknifræði og ég var bara að dingla mér þarna en við fluttum svo aftur heim í janúar á þessu ári. Við komum þó alltaf heim á sumrin meðan við dvöldum erlendis og ég vann á kaffihúsinu og hann réri en hann er líka trillukarl. Ég hef ekki kennt í grunnskólanum síðan við fórum til Danmerkur. Á komandi vetri erum við að hugsa um að hafa kaffihúsið eitthvað opið og jafnvel gera eitthvað sniðugt, vera með uppákomur hérna, handavinnunámskeið og fleira skemmtilegt. Fólk sækir hingað hvaðanæva að og er opið fyrir ýmsu“, segir Anna Þóra.
Gestkvæmt í kaffihúsinu
Rétt í þessu koma inn Matti Magg og Sirrý, hjón úr Garðinum og skella sér á veitingar hjá Önnu Þóru.
Það er auðvelt að langa í allt á matseðlinum í kaffihúsinu á Gamla Rifi. Við fengum okkur gómsæta fiskisúpu og heimabakað brauð, sem rann ljúft um bragðlaukana. Kaffið er að sjálfsögðu frá Kaffitár en Addý æskuvinkona Önnu er eigandi þess fyrirtækis.
„Ég fæ svo oft gesti af Suðurnesjum, það er svo gaman. Það hafa nokkrir gestir þaðan komið hingað í þessari viku og í dag er allt fullt af ykkur“, segir Anna hlæjandi.
Allt heimalagað
Það er auðséð að Anna Þóra fær mikið út úr því að reka kaffihúsið sitt en hún segist samt hafa þurft að læra margt varðandi hagræðingu í matargerð þegar eldað er fyrir svona marga allan daginn. Það sé alltaf nauðsynlegt að undirbúa sig eitthvað fyrir hvern dag, eiga nógan tilbúinn grunn eins og td. fiskisúpugrunninn, sem síðan er bætt út í ferskum fiski og öðru góðgæti.
Allt á matseðli kaffihússins er heimalagað af þeim vinkonum, bæði girnilegar kökur og maturinn. Fiskinn veiða eiginmenn Önnu og Siggu en Anna segist hrifin af þeirri veitingahefð, sem sé að skapast á Íslandi þegar veitingahúsin nýta sér fæðu og fang úr héraðinu, þar sem þau eru staðsett.
Anna Þóra segist hafa það gott og að henni líði vel á Rifi. Það er stutt suður ef hana langar þangað í heimsókn en annars nægir henni stemningin vel í sjálfu plássinu. Hún segist aldrei missa af neinni afmælisveislu fyrir sunnan því það sé ekkert mál að keyra.
Við þökkum Önnu Þóru kærlega fyrir girnlegar veitingar og hlýlegar móttökur. Þeim vinkonum óskum við svo áfram velfarnaðar í lífi og starfi.
Þórður heitinn á Dagverðará sagði að á Snæfellsnesi væri kynngimagnaður kraftur. Kraftur sem ekki væri hægt að útskýra en fólk fyndi fyrir honum og veitti þeim lífsfyllingu sem byggju þar.
Texti og myndir: Marta Eiríksdóttir