Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 26. október 2001 kl. 09:13

Geirmundur sló fyrsta höggið í nýjum golfhermi GS

-glæsilegasta golf-inniaðstaða á landinu

Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðsstjóri í Keflavík sló fyrsta höggið í nýjum golfhermi í æfingahúsi Golfklúbbs Suðurnesja sl. laugardag. Geirmundur rifjaði upp gamla takta en hann var meðal kylfinga sem léku golf á fyrstu árum klúbbsins í Leirunni.
„Þetta er stórskemmtilegt tæki og kylfingar hljóta að fagna því. Aðstaðan hér er líka frábær og ég óska GS til hamingju með þetta framtak“, sagði Geirmundur. Hann lék eina holu á móti Einari Magnússyni, formanni GS í nýja golfherminum. Þeir félagar léku 10. holuna á Belfry-vellinum í Englandi þar sem næsta Ryder-mót í golfi milli Evrópu og Bandaríkjanna fer fram á næsta ári.
Gylfi Kristinsson hefur haft yfirumsjón með framkvæmdum í æfingahúsi GS sem og uppsetningu golfhermisins. Formaðurinn þakkaði honum frábært starf sem og þeim sem komu að framkvæmdunum. GS er nú ekki aðeins með besta golfvöll á Íslandi heldur og bestu inniaðstöðu allra klúbba“, sagði Einar. Í æfingahúsinu er 18 holu púttvöllur og góð aðstaða til að slá í net. Þá hefur verið sett upp sjónvarp með gerfihnattadiski þar sem hægt er að sjá allt sport, golf og fótbolta. Getraunir verða á staðnum og einnig snóker og skák. „Þetta kemur virkilega á óvart hvað hægt er að gera. Þessi aðstaða er frábær og þessi golfhermir á örugglega eftir að draga að“, sagði Skúli Skúlason, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar en hann var í hópi vel á annað hundrað manns sem heimsóttu æfingahúsið á opnunardaginn.
Æfingahúsið og golfhermirinn eru opin alla daga vikunnar og er tekið við pöntunum í golfherminn í síma 421-4100 eða 898-1009. Gylfi sagði að búið væri að panta þó nokkuð í herminn en ekki væri ólíklegt að bókanir myndu þéttast í hann á næstu dögum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024