Geirfugl, kjötsúpa og veisla fyrir skynfærin
Fjöldi fólks var á ferðinni í miðbæ Keflavíkur í gær en þá voru flestar þær sýningar opnaðar sem í boði eru á þessari elleftu Ljósanótt í Reykjanesbæ. Óhætt er að segja að flóran í menningarlífi bæjarins sé fjölbreytt því tugir listamanna sýna verk sín upp eftir allri Hafnargötunni og kennir þar marga grasa í hönnum, myndlist, ljósmyndun og handverki.
Þá mun tónlistarfólk bæjarins ekki láta sitt eftir liggja og verður t.d. þétt tónlistardagskrá í Duushúsum á morgun og veglegir hátíðartónleikar í Stapa á sunnudaginn.
Á meðal dagskrárliða í dag má nefna að afhjúpun geirfuglsins við Valahnúk á Reykjanesi en Reykjanesbær tekur þátt í alþjóðlega verkefninu „The Lost Bird Project" Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.
Þá verður sýning listamannsins Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar í dag kl. 18 og er óhætt að segja að hún sé ein sú forvitnilegasta sem þar hefur verið sett upp. Þar býður Guðmundur upp á sannkallaða veislu fyrir skynfærin.
Í kvöld hefst svo dagskrá á útisviði kl. 19 og að venju mun öðlingurinn Axel Jónsson og hans góða starfsfólk hjá Skólamat bjóða gestum Ljósanætur upp á heita og ljúffenga kjötsúpu.
Á meðal þeirra sem stíga á svið má nefna gleðisveitina Breiðbandið, Elízu Newman, Retro Stefson og Raggi Bjarna og Bjartmar og bergrisarnir.
Ítarlega dagskrá er hægt að nálgast á vef Ljósanætur á www.ljosanott.is.
---
VFmynd/elg - Skólamatur býður upp á kjötsúpu í kvöld.