Geimsteinn gefur út Rokkabillýband Reykjavíkur
Rokkabillýband Reykjavíkur sú gamalreynda sveit hefur nú vaknað til lífsins og kveður sér hljóðs með nýrri plötu. Platan hefur hlotið nafnið Reykjavík eftir samnefndu lagi. Titillagið Reykjavík hefur fengið feikna góð viðbrögð og hljómað stíft á öldum ljósvakans.
Ýmsir höfundar
Reykjavík inniheldur tíu lög, öll með íslenskum textum og koma nokkrir höfundar við sögu. Tómas Tómasson söng- og gítarleikara sveitarinnar á um helming laga og texta. Guðmundur Jónsson og Hreimur Örn Heimisson eiga sitt lagið hvor, Guðmundur við eigin texta, lag Hreims við texta Kristjáns Hreinssonar. Eitt lag er samvinnuverkefni þeirra Tómasar og Guðmundar og að auki eru þrjú erlend lög við texta Kristjáns Hreinssonar.
Hljóðrituð í Ríkisútvarpinu
Platan var að grunninum til hljóðrituð í Stúdíó 12 Ríkisútvarpinu Efstaleiti og stjórnaði Tómas upptökum en Óskar Páll Sveinsson hljóðblandaði í Stúdíó Draumi. Vilhjálmur Warén hannaði umslagið og það er Geimsteinn, útgáfufyrirtæki Rúnars Júlíssonar sem gefur út.