Gefandi og skemmtilegt starf
– segja Oddfellowarnir Fanný Axelsdóttir og Hjálmar Árnason. „Opið hús“ hjá Oddfellowum á Suðurnesjum nk. sunnudag
Oddfellowreglan opnar almenningi í fyrsta sinn dyr regluheimila sinna og verður „Opið hús“ í Oddfellowhúsinu í Keflavík nk. sunnudag kl. 13.–17. Tilgangurinn er að kynna Oddfellowregluna, líknar- og mannúðarstarf hennar og húsakynni fyrir landsmönnum án nokkurra skuldbindinga. Fanný Axelsdóttir og Hjálmar Árnason eru bæði Oddfellowar og segjast ekki sjá eftir því að hafa gengið til liðs við Regluna þar sem mannrækt og vinátta séu meðal aðalmarkmiða starfsins.
Oddfellowreglan fagnar 200 ára afmæli á þessu ári en þau Fanný og Hjálmar eru í hópi fjögur þúsund Oddfellowa á Íslandi. Þá hefur Oddfellowstarf verið sterkt í Reykjanesbæ en fyrsta stúkan, Njörður, var stofnuð árið 1976 og var Tómas Tómasson, þáverandi Sparisjóðsstjóri og forseti Bæjarstjórnar Keflavíkur, fyrsti yfirmeistari hennar. Sex regludeildir stunda nú starf sitt í Oddfellowhúsinu í Keflavík, fjórar skipaðar körlum og konum á Suðurnesjum en það eru Oddfellowstúkurnar Njörður og Jón forseti og Rebekkustúkurnar Steinunn og Eldey. Systrastúkur eru kallaðar Rebekkustúkur. Tvær aðrar regludeildir sem stunda starf í Oddfellowhúsinu í Keflavík eru blandaðar með félögum sem koma víðar að en af Suðurnesjum.
Oddfellowandi
„Ég fékk líklega Oddfellowanda í mig snemma því pabbi (Axel Jónsson) gekk í Njörð þegar ég var tveggja ára gömul. Svo má segja að ég hafi fengið Oddfellowandann yfir mig þegar ég kom fyrst inn í Oddfellowsalinn í Keflavík, þá sem maki. Tilfinningin var þannig að frá þeim tíma var ég ákveðin í að verða Oddfellowi sjálf. Það var eitthvað sem snart mig. Mér fannst þetta svipað og þegar ég fer í jóga. Maður stillir eða hreinsar hugann einhvern veginn. Friðurinn innandyra er góður, það er slökun að fara á fund og það er gott þegar maður er í erilsömu starfi,“ segir Fanný þegar hún rifjar upp sín fyrstu tengsl sín við Oddfellowregluna.
Hjálmar hefur alla tíð verið mikill félagsmálamaður og hélt að hann væri nú búinn með þann pakka þegar hann ákvað að verða Oddfellowi. „Ég sé ekki eftir því. Þetta er vissulega öðruvísi starf en margt annað í félagsmálum en mér finnst þetta frábært. Það er gott að vera hluti af þessu bræðralagi og eiga griðastað þar sem mannrækt og vinátta spila svo stóran þátt. Ég hef kynnst mörgu fólki eftir að ég kom inn og mér finnst ég betri maður á eftir,“ segir Hjálmar sem hefur m.a. starfað í Rotary-hreyfingunni en hann gekk í Rotaryklúbb Keflavíkur þegar hann varð skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir margt löngu síðan. Nú skipar Oddfellowstarfið stóran þátt hjá gamla skólameistaranum sem hætti störfum hjá Keili á Ásbrú fyrr á þessu ári.
Formfesta og hefðir
Þau eru sammála um að formfesta og hefðir séu góðir þættir í Oddfellowstarfinu en einkunnarorð reglunnar eru: „Vinátta, kærleikur og sannleikur“. „Þessi einkunnarorð tengjast uppeldi mínu og eiga vissulega mjög við í lífinu almennt. Maður finnur þetta vel þegar maður hittir systur á fundum. Einlægnin og kærleikurinn eru ríkjandi,“ segir Fanný. Hjálmar segir að samveran með bræðrum sé mikilvæg og skemmtileg. „Mannræktin og bræðraþelið og svo gerum við líka fullt saman fyrir utan fundina. Förum í ýmsar ferðir saman og hittumst fyrir utan fundina. Ég hef til dæmis verið í hóp Oddfellowa sem í allnokkur ár hefur farið í veiði saman. Þá eigum við góðar stundir saman á árbakkanum.“
Fanný tekur undir það en Rebekkustúkurnar í Keflavík hafa verið duglegar að fara í ferðir og hafa t.d. haldið fundi utan Suðurnesja. Hún segir slíka samveru styrkir tengslin og sé líka skemmtileg og ung Oddfellowkonan segir að aldur sé afstæður í Reglunni. „Ég á nokkrar mjög góðar vinkonur í Oddfellow sem eru miklu eldri en ég og mér finnst það mjög mikilvægt og lærdómsríkt,“ segir hún og tekur undir með Hjálmari með vináttuna. „Einn af stóru kostunum við að vera í svona félagsstarfi er hvað maður kynnist mörgum.“
Leyndardómurinn?
En hvað með þennan leyndardóm í kringum Oddfellow? Hvað segja þau við því?
„Það er partur af sjarmanum þó svo að það sé stundum gert of mikið úr því, sérstaklega hjá þeim sem ekki til þekkja. Skýringin er eðlileg og líka söguleg. Hún birtist líka í því að stór hluti af mannræktinni kemur fram í því sem Oddfellowar gefa af sér í samfélaginu. Það er sjaldnast haft hátt um það þó svo að það séu fá leyndarmál í því. Oddfellowar hafa látið gott af sér leiða á mörgum sviðum og styrkt hin ýmsu málefni sem og einstalinga og fjölskyldur,“ segir Hjálmar en Oddfellowreglan og stúkur hennar á Íslandi hafa til dæmis veitt 148 milljónir króna til ýmissa verkefna á undanförnum tólf mánuðum. Á Suðurnesjum hafa Oddfellowar styrkt hin ýmsu mál og nýlega komið að uppbyggingu líknardeildar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Af mörgum umfangsmiklum styrktarverkefnum Oddfellowa á Íslandi má nefna viðbyggingu og endurbætur á húsi Ljóssins og uppbyggingu líknardeildar Landsspítala í Kópavogi. Saga Oddfellow hefur frá upphafi tengst stórum verkefnum sem landsmenn hafa notið eins og bygging holdsveikraspítalans í Laugarnesi við Reykjavík. Þegar hann var byggður, í upphafi nítjándu aldar, var þetta stærsta timburhús sem hafði verið byggt á Íslandi, með rúm fyrir 60 sjúklinga.
Hjálmar segir að Oddfellow hafi verið í fjölskyldu hans en afi hans var einn af stofnendum Oddfellowstúkunnar Þorkels mána. Hann minnist þess sem ungur drengur að hafa oft farið á jólaböll í Oddfellowhúsinu í Reykjavík en það var ein af stærri og glæsilegri byggingum borgarinnar þegar hún var byggð. Fanný segist líka eiga góðar minningar frá æsku sinni en pabbi hennar hefur verið virkur Oddfellowi í fjörutíu ár.
En þessi tími sem fer í Oddfellow? Er þetta ekki tímafrekt?
„Jú, vissulega eins og kannski með flest allt félagsstarf. En ég hef notið skilnings hjá fjölskyldunni og að fara á Oddfellowfund er mín stund og ég set það í forgang að mæta. Það er hluti af starfinu ef maður vill ná því besta úr því, að mæta vel og stunda starfið,“ segir Fanný og undir það tekur Hjálmar og segir að lokum: „Það er auðvelt að gefa sér tíma í eitthvað sem er gefandi og skemmtilegt eins og Oddfellowstarfið er.“