Gefandi að hjálpa fólki í gegnum verstu daga lífsins
- Jón Garðar Viðarsson er einn fárra karla á Íslandi í hjúkrun
Jón Garðar Viðarsson, svæfingarhjúkrunarfræðingur á Slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, er einn fárra karla á Íslandi sem starfa við hjúkrun. Eftir útskrift úr hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri árið 2003 fékk hann gott atvinnutilboð frá HSS og flutti því með fjölskyldunni til Reykjanesbæjar. Hann segir gott að vinna á fleirum en einum stað í einu og hefur tekið vaktir hjá Brunavörnum Suðurnesja en hann er einnig lærður sjúkraflutningamaður. Þá kennir hann kúrsa í hjúkrun við Háskóla Íslands og við Sjúkraflutningaskólann, ásamt því að stunda meistaranám í svæfingahjúkrun. „Þetta hefst með því að sofa hratt og skipuleggja sig vel,“ segir hann.
Áður en Jón Garðar hóf nám í hjúkrunarfræði lærði hann nudd og lauk sjúkraliðanámi og í starfi sínu sem sjúkraliði kynntist hann starfi hjúkrunarfræðinga og ákvað að læra fagið. Hann kveðst vera stoltur hjúkrunarfræðingur og segir starfið gríðarlega skemmtilegt, enda starfi hann með einstaklega vel menntuðu og færu samstarfsfólki á HSS. „Samskiptin við fólkið sem leitar til okkar eru svo gefandi. Við hittum það á versta degi lífsins, hjálpum því og komum því lifandi í gegnum daginn. Til okkar kemur oft fólk í alvarlegu ástandi og við gerum allt sem við getum. Fólk lifir þetta af og kemst heim til fjölskyldunnar.“ Jón Garðar segir álagið þó mikið. Það hjálpi því til að dreifa kröftum sínum líkt og hann geri til að koma í veg fyrir að brenna út af álagi.
Karlar eru aðeins um tvö prósent hjúkrunarfræðinga hér á landi. Síðasta sumar var átakinu Karlmenn hjúkra hleypt af stokkunum á Facebook en markmið þess er að hvetja fleiri karla til að kynna sér fagið. VF-mynd/dagnyhulda
Þarf stórar hreðjar til að vera karl í hjúkrun
Karlar eru rétt innan við 2 prósent hjúkrunarfræðinga á Íslandi og segir Jón Garðar eina af ástæðunum þá að ímynd starfsins sé að það sé kvennastarf. „Áður var alltaf talað um hjúkrunarkonur en þetta er smám saman að breytast enda er það mín skoðun að það þurfi ansi stórar hreðjar til að vera karl í hjúkrun,“ segir hann og brosir. „Stundum þegar ég hitti sjúklinga er með mér læknir sem er ung kona og þá kemur nokkuð oft fyrir að fólk haldi að ég sé læknirinn.“
Á fyrsta ári sínu í hjúkrunarfræði varð Jón Garðar svekktur yfir því hversu fáir karlar voru í hjúkrun en tveir aðrir karlar hófu nám á sama tíma og hann. Annar hætti og hinn ákvað að seinka sínu námi. „Tveir félagar mínir, sem eru bráðatæknar, útskrifuðust úr hjúkrunarfræði í vor. Ég held að þegar slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru farnir í hjúkrun þá sé starfið orðið töluvert karlmannlegra.“ Að mati Jóns Garðars mættu laun hjúkrunarfræðinga vera talsvert betri og telur hann þau hluta af þeim vanda hve fáir karlar sæki í fagið. „Margir hjúkrunarfræðingar vinna sem flugfreyjur yfir sumarið og fá þar talsvert hærri laun fyrir auðveldari vinnu.“ Hann segir að sama skapi mikilvægt að fleiri karlar komi í hjúkrun til að launin hækki. „Við þekkjum það af reynslunni að laun hjá starfsstéttum hækka þegar körlum fjölgar. Svo er líka skemmtilegra þegar fólk af báðum kynjum vinnur að sömu hlutunum.“ Á Englandi er hlutfall karla í hjúkrun á milli 15 og 20 prósent og Norðurlöndunum er hlutfallið 10 til 17 prósent. Í Bandaríkjunum er það milli 10 og 15 prósent.
Jón Garðar er einnig slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og kennir við Sjúkraflutningaskólann.
Átakinu „Karlmenn hjúkra“ var hleypt af stokkunum á Facebook síðasta sumar og hefur fengið góð viðbrögð. Jón Garðar vonar að það verði til þess að fleiri karlmenn kynni sér fagið og leggi fyrir sig. Það er þó ekki einungis skortur á körlum meðal hjúkrunarfræðinga því að útlit er fyrir að á næstu þremur árum fari 25 prósent hjúkrunarfræðinga hér á landi á eftirlaun.
Skurðstofum lokað eftir hrun
Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru tvær stórar skurðstofur og ein minni og er engin þeirra í almennri notkun. Lokið var við endurbætur á skurðstofunum rétt fyrir hrun, árið 2008, en þá var þeim lokað vegna fjárskorts. Jón Garðar segir ljóst að ef skurðstofurnar yrðu hluti af almennri starfsemi á HSS þá myndi það miklu breyta fyrir íbúa á svæðinu og létta álagi af Landspítala. „Það er engin spurning að hérna á Suðurnesjum væri hægt að reka heilmikla starfsemi ef til þess fengist fjármagn. Hérna væri hægt að framkvæma minni aðgerðir sem ekki krefjast gríðarlegs tækjakosts og eftirlits dagana á eftir.“ Hann bendir á að biðlistar eftir aðgerðum á Landspítala geti verið langir og að það valdi fólki óþarfa sársauka. „Þegar ég hef verið að vinna á Landspítalanum hef ég tekið á móti mjaðmagrindarbrotnu fólki sem beðið hefur í þrjá daga eftir aðgerð. Oft er þetta aldrað fólk sem liggur þá fyrir og bíður. Það getur valdið legusárum, auk þess sem kyrrstaðan getur aukið líkur á blóðtappa, lungnabólgu og öðrum vandamálum sem gera bataferlið lengra og erfiðara. Þetta er mjög erfitt ástand þegar nær öllu flæði sjúklinga er beint til Reykjavíkur.“
Skurðstofur á HSS eru leigðar út og þar framkvæmdar sérhæfðar aðgerðir. Auk þess að starfa á slysa- og bráðamóttöku HSS starfar Jón Garðar sem svæfingahjúkrunarfræðingur hjá einum þeirra, Auðuni Sigurðssyni, almennum skurðlækni, sem framkvæmir magabandsaðgerðir og svokallaðar magaermar sem eru umfangsmeiri aðgerðir þar sem numinn er brott hluti af maganum. Aðgerðirnar eru ætlaðar til að hjálpa fólki í yfirvigt að léttast. Sjúklingarnir sem fara í magaermarnar dveljast yfirleitt á HSS í eina nótt og útskrifast næsta dag.
Fjársveltasta heilbrigðissvæði landsins
Jón Garðar segir ljóst að Suðurnesin séu fjársveltasta heilbrigðissvæði landsins og að gera þurfi mikinn skurk í heilbrigðismálum á svæðinu. Hann bendir á að Slysa- og bráðamóttakan á HSS sé sú þriðja stærsta á landinu á eftir Reykjavík og Akureyri. „Á Akureyri eru stöðugildi hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku talsvert fleiri en hér á HSS. Við hjúkrunarfræðingarnir á Slysa- og bráðamóttöku HSS sinnum kannski að meðaltali um 15 sjúklingum á hverri vakt en á Slysa- og bráðamóttöku LSH þykir mikið fyrir hjúkrunarfræðingana að fá 4 til 5 sjúklinga á vakt.“ Heilbrigðismálin hafa verið töluvert í umræðunni núna í aðdraganda Alþingiskosninga og kveðst Jón Garðar vona að málin færist til betri vegar. „Frá árinu 2007 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað gríðarlega og eru íbúar á þjónustusvæði HSS í kringum 25.000. Heilbrigðiskerfið hér hefur samt engan veginn náð að fylgja þessari fólksfjölgun eftir. Það kemst í fréttirnar ef 100 manns mæta sama daginn á síðdegisvakt heimilislækna á Selfossi en það er eitthvað sem gerist að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum í viku hérna á Suðurnesjum.“ Jón Garðar bendir á að á þessu ári hafi orðið 30 prósenta aukning í komum á HSS og árið er orðið metár í sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja. „Þess má einnig geta að hér er ekki sólarhringsvakt hjúkrunarfræðinga sem er fyrir hendi á Akureyri og Selfossi og árið 2014 frá 1. jan til 10. nóvember komu 1478 sjúklingar sem læknir á vakt á HSS þurfti að sinna einn síns liðs og undirstrikar það þörfina fyrir sólarhringsvaktir hjúkrunarfræðinga á slysa- og bráðamóttöku HSS.“
Þing Evrópska endurlífgunarráðsins var haldið á Íslandi síðasta sumar og var Jón Garðar einn fimm liðsmanna í íslenska liðinu sem hafnaði í 2. sæti á eftir Englendingum. „Við ætlum okkur sigur á næsta ári í Þýskalandi. Við gátum ekki unnið Englendinga sama sumarið bæði í fótbolta og endurlífgun.“ Í liði Íslands voru einvörðungu hjúkrunarfræðingar og bráðatæknar en í öllum hinum liðunum voru einnig læknar.