Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Gauja og fleiri sjósundsskvísur á Garðskaga
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 15. ágúst 2019 kl. 12:32

Gauja og fleiri sjósundsskvísur á Garðskaga

Sjórinn er farinn að lokka marga til sín. Undanfarið berast okkur fréttir, af samfélagsmiðlum og úr fjölmiðlum, af fólki sem stundar sjósund og segir það auka hreysti og kraft. Sérstaklega er talað um að kalt vatn geti haft góð áhrif á og minnkað bólgur í líkamanum. Sundlaugar landsins keppast við að setja upp kalda vatnspotta til þess að svara aukinni eftirspurn almennings sem langar að baða sig í ísköldu jafnt sem heitu vatni. 

Við fréttum af fólki sem er að fara í sjóinn úti við Garðskagavita en þar er einkar góð aðstaða til sjóbaða, hvort heldur fólk vill synda eða tipla tánum ofan í kaldan sjó. Þegar flæðir að þá hittist fólk gjarnan þarna og fer í sjóinn saman. Við áttum stefnumót við nokkrar konur sem fóru saman í sjóinn á háflæði einn sólríkan morgun í síðustu viku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún fór fyrst í sjóinn fyrir tólf árum

Sú sem fer fyrir hópnum og hefur stundað sjóböð allra lengst er Guðríður Svanhvít Brynjarsdóttir, alltaf kölluð Gauja en hún er íþróttakennari í Gerðaskóla Suðurnesjabæ.  

„Ég byrjaði á þessu árið 2007 þegar ég fór í fyrsta skipti í Nauthólsvík og svo fór ég að fara í sjóinn hér á Garðskaga. Síðan þá hef ég farið á nokkra staði á landinu þar sem ég sé lokkandi fjöru og sjó. Það er best að fara þar sem er sandfjara. Ég fer aldrei ein, það er alltaf einhver með mér, annað hvort ofan í eða að vakta mig í fjöruborðinu. Síðustu ár hef ég farið reglulega í sjóinn og finnst það gera mér mjög gott. Á Garðskagavita hefur þó verið svo mikið brim í janúar og febrúar undanfarin ár, að ég hef tekið mér hvíld frá sjónum því þannig aðstæður geta verið mjög varasamar. Annars fer ég aldrei út fyrir röstina því þar er straumþungt, ég held mig frekar nálægt landi og finnst best að fara þegar það er flóð,“ segir Gauja sem einnig hefur farið á námskeið hjá Andra Iceland en sá maður fer ofan í kar fyllt með klaka. 

„Það var kaldara hjá honum Andra Iceland en að fara ofan í sjóinn sjálfan. Við vorum að æfa núvitund og slökun á meðan við vorum ofan í ísköldu vatninu sem var mjög krefjandi. Andri mælir ekki með heitum potti á eftir ísbaðinu heldur vill hann láta líkamann hitna af sjálfum sér, hægt og rólega. Ég fer samt yfirleitt sjálf í heitan pott eftir sjóbaðið mitt og finnst það henta mér en það verður auðvitað hver að finna sitt. Sumum hentar til dæmis alls ekki að gera svona, hvorki að fara í kaldan sjó eða ísbað,“ segir hún og bætir við að sjóböð séu einnig góð fyrir sálina. Þegar við förum í sjóinn þá tekur líkaminn inn í gegnum húðina ýmiskonar mikilvæg sölt og sennilega finnast öll þau frumefni sem til eru, einmitt í sjávarvatninu.  

Fleiri eru að fara í sjóinn

„Mér finnst frábært að fleiri séu að fara í sjóinn því þetta er ekki bara gott fyrir líkamann heldur einnig andlega. Ég fer svona einu sinni til tvisvar í viku, maður þarf í raun ekkert að fara oftar. Mér finnst þetta hlaða mig orku, hreinsa hugann, allt áreiti burt og svo sef ég betur. Ég finn einnig að þetta er bólgueyðandi og verkjastillandi. Árið 2014 lenti ég í slysi og laskaði hálsliði og þá lá ég í sjónum til að lækna mig og mýkja upp hálsliði mína. Ég fór oftar þá í þessum tilgangi og fannst best að fara á kvöldin og fara svo beint að sofa. Ég er svo heppin að hafa heitan pott hér heima hjá mér og er því ekki háð opnunartíma sundlauganna. Sumir segja að við eigum samt frekar að láta líkamann hitna af sjálfum sér og það geri ég stundum, það er allur gangur á því en mér finnst heiti potturinn góður. Ég er alveg frá tíu mínútum úti í sjó upp í hálftíma en þetta er þjálfun. Þú byrjar ekki á því að fara í tíu mínútur, þá er nóg að fara í nokkrar mínútur, eina til tvær gæti verið nóg fyrir þig en svo lengirðu tímann. Best er að fara með vönu fólki fyrst þegar þú ferð í sjóinn. Það eru sumir sem æfa kuldaþol sitt fyrst í köldu pottunum í sundi og finna þegar þeir loks fara í sjóinn að þeir þola kuldann betur. Sjórinn getur stundum verið heitari en köldu pottarnir í laugunum, það er nú bara svoleiðis,“ segir Gauja sem er búin að koma sér upp sjósokkum og vettlingum til þess að þola betur kuldann í sjónum en tær og fingur kólna fyrst. 

Var kuldaskræfa en ekki lengur

„Ég fór fyrst bara í sundbol í sjóinn og berfætt en svo keypti ég mér sokka og hanska sem tilheyrir í raun blautbúningi og ég fer ennþá alltaf í sundbol ofan í en er með buff á höfðinu. Þessi útbúnaður heldur mér lengur heitri því þessir líkamshlutar kólna fyrst. Áður en ég byrjaði að fara í sjóinn var ég alltaf svo mikil kuldaskræfa og í útilegum pakkaði ég mér alltaf inn en núna get ég sofið í náttkjól því ég þoli miklu betur kulda. Þetta hefur stórlagað blóðflæði í líkamanum mínum. Svo er þetta hellings brennsla en best er að beita Wimhoff öndun en þá andarðu mikið inn, að þér og styttra út. Þetta er ákveðin ör öndun og hjálpar þegar það er kalt í sjónum. Annars erum við bara að láta okkur fljóta í sjónum, það er voða notalegt og höldum okkur við strandlengjuna. Við erum ekkert að fara langt út vegna strauma og undiröldu sem getur verið varasamt að lenda í en þá ræður þú ekki lengur, sjórinn er það öflugur að hann tekur yfir. Við tökum enga áhættu og höldum okkur öruggum nálægt landi,“ segir Gauja og bendir á að bæta mætti aðstöðuna á Garðskaga til sjóbaða með því að setja upp heita potta í fjöruborðinu.

Heitir pottar og kaldar sturtur á Garðskagavita

„Það væri gaman ef bæjaryfirvöld gætu sett upp einhverja heita potta í grjótgarðinum og í leiðinni bætt aðstöðuna einnig fyrir þá sem fara í sjóinn á Garðskaga. Þarna mættu koma útisturtur til að skola af sér sandi og sjó. Þegar við horfum til Akraness þá hefur þeim tekist að útbúa sérlega flotta baðaðstöðu niður við sjó og þar er ókeypis fyrir almenning ofan í pottana, sem er mjög virðingarvert. Það þarf ekki að kosta mikið að útbúa einfalda góða aðstöðu á Garðskaga. Auðvitað þarf að vanda sig því staðurinn er fallegur frá náttúrunnar hendi alveg eins og hann er. Það verður því að leyfa umhverfi og náttúru að njóta sín áfam og leyfa almenningi að eiga frían aðgang að þessum einstaka stað sem Garðskagi er. Út frá heilsufarslegu sjónarmiði og lýðheilsu væri þetta ein leið í að efla íbúa svæðisins,“ segir Gauja. 

Nokkrar konur fóru saman í sjóinn á Garðskaga þennan morgun og við vildum vita hvers vegna þær væru að þessu. 

Mér finnst sjósund æði
segir Helga Eiríksdóttir

„Ég fór að fikta við sjósund á Sólseturshátíðinni þegar hún fór fram hér á Garðskaga fyrir nokkrum árum og fannst það gaman. Núna þegar ég er á ferðalagi um landið þá fer ég oft eftir göngu í sjóinn þar sem það er hægt. Ég hef verið að fara með þeim hér á Garðskaga en fer einnig oft í venjulegt sund. Mér finnst sjósund æði, að halla mér aftur í sjóinn og láta mig fljóta er góð slökun. Það er meiri stemning að fara með einhverjum í sjóinn og ég vil gera þetta oftar. Ég fór á námskeið hjá Þór Primal Iceland og svo fer ég í köldu böðin í sundlaugunum en eftir þau þoli ég betur kuldann í sjónum. Köldu pottarnir eru góð þjálfun fyrir sjósund en á sumrin er sjórinn samt heitari en pottarnir. Þetta er bara svo gaman og skemmtilegur félagsskapur. Ég ólst upp í Garðinum og sem krakki var ég oft að busla úti í Garðskagaflös, maður lék sér oft hérna.“ 

Sjósund er allt önnur upplifun
segir Jóhanna Kristín Hauksdóttir

„Ég var byrjuð heima á Fáskrúðsfirði en þar ólst ég upp í fjörunni, var oft sem krakki að leika mér í fjörunni. Við krakkarnir fengum að fara út í en mikið seinna fór ég að fara markvisst sjálf í sjóinn. Ég elska að vera í vatni og sjó. Þegar ég ferðast þá reyni ég einnig að koma því við. Eitt sinn synti ég í Lagarfljóti sem er mjög gruggugt og brúnt vatn en það er svona með því óþægilegra sem ég hef prófað, þegar þú veist ekkert hvað er þarna ofan í og allar sögurnar um Lagarfljótsorminn. Ég held mig alltaf nærri landi í dag því ég lenti í því heima á Fáskrúðsfirði að synda of langt út eitt sinn og fann þá hvernig straumurinn í sjónum tók yfir og ég var hætt að stjórna ferðinni. Þá setti ég allan kraft í að synda strax til lands aftur og tókst. Það var svona frekar óþægileg upplifun því sjórinn getur auðvitað hrifsað mann til sín. Ég flutti hingað í Garðinn fyrir ári og kynntist Gauju sem tók mig með einn daginn. Sjórinn hér er heitari en fyrir austan og ég reikna með að það sé golfstraumnum að þakka. Ég fer oft í sundlaugina og syndi mikið sem mér finnst mjög góð hreyfing. Sjósund er allt önnur upplifun. Það er þetta góða sem gerist í æðunum, þessi stingur út um allt, algjör nautn. Ég hef aldrei vanist því að fara í heita potta eftir sjósund, því fyrir austan er aðgengi að heitu vatni ekki eins almennt og hér fyrir sunnan. Að fara í sjóinn gefur góða tilfinningu og svo mikla ánægju.“

Það er ekki eins kalt og maður heldur
segir Sigrún Sigurðardóttir

„Ég prófaði fyrst í fyrra og mér fannst það æðislegt, hreint út sagt. Ég fór að kvöldi og vellíðunartilfinningin var æði. Manni líður eitthvað svo vel í sjónum og það kom mér mjög á óvart. Það er ekki eins kalt og maður heldur. Húðin verður líka svo silkimjúk eftir sjóinn. Ég elska þetta. Í fyrsta sinn var ég í tuttugu mínútur en var í vettlingum og skóm sem tilheyra blautbúningi. Mér finnst ég yngjast um mörg ár eftir sjóbað, þetta er svo hressandi.“  

Þær sem mættu í sjósund þennan sólríka morgun. Talið frá vinstri; Pálína Erlings, Jóhanna, Helga, Guðríður, Sigrún og Unnur Knúts.