Garibaldi kom, sá og sigraði á Ljósberanum 2023
Úrslit Ljósberans 2023 voru kynnt og viðurkenningar veittar fyrir bestu ljóðin að mati dómnefndar við fallega athöfn á Bókasafni Reykjanesbæjar nýverið. Garðar Baldvinsson hlaut fyrstu og önnur verðlaun í samkeppninni fyrir ljóðin Hvolf og Segðu satt. Hann skrifar undir listamannsnafninu Garibaldi. Anna Björg Hjartardóttir hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið Draumar hefja sig til flugs á heiðinni. Sérstaka viðurkenningu fékk Hrefna Ósk Maríudóttir fyrir ljóð sem barst án titils.
1. sæti:
Ljóðið „Hvolf“ barst undir dulnefninu Kvíavellir.
hvolf
sindrandi bylgjur um hvolf
sindrandi augu um hvolf
sindrandi mjólkurleið um hvolf
ambur á vörum
fingur að handarbaki
neglur sem himnur
allt nýtt
litli bróðir
formlaus
hvítvoðungur
möguleikar
tækifæri
ráðrúm
hvolf þenjast
handan alheims
sindrandi
Umsögn dómnefndar:
Það inniheldur heimspekilegar vangaveltur um undur alheimsins, himinhvolfsins, vetrarbrauta og svo þess stórfenglega undurs sem nýfætt barn er hverju sinni.
Hversu dásamlegt það er að barn fæðist með tíu fingur og hver og einn þeirra með örþunna nögl eins og himnu? Hvaða möguleikar og hvaða hlutverk bíður hvítvoðungs undir stjörnuhimni? Ljóðið fangar þessar spurningar og varpar ljósi á umkomuleysi og ábyrgð mannsins í þeim heimi sem hann fæðist í.
Í fyrstu verðlaun er yfirlestur hjá Hörpu Rún Kristjánsdóttur. Í boði er yfirlestur á ljóðum eða handriti að ljóðabók með endurgjöf og spjalli í samræmi við umfang efnis og óskir höfundar.
Harpa Rún Kristjánsdóttir er með MA-próf í almennri bókmenntafræði frá HÍ og hefur starfað við ritstjórn og útgáfu frá árinu 2015. Hún hefur skrifað skáldsögu, ljóðabækur, fræðitexta og leikrit auk þess að fást við þýðingar.
2. sæti:
Ljóðið „Segðu satt“ barst undir dulnefninu Berghylur.
segðu satt
hver verður næstur
hvert fór lífsins fegurð
hvernig útleggjast táknin
hvernig lifir dauðinn
hví þarf allt að vera í táknum
sem má túlka að vild
kannski góðvild
kannski óvild
hví þurfa dánir svo flókin tákn
mega þeir ekki tala við okkur lifandi
beint og milliliðalaust
talaðu bróðir
segðu mér satt
er líf eftir dauðann
Umsögn dómnefndar:
Þetta ljóð er áleitið og spyr erfiðra spurninga. Af hverju eru lífið og dauðinn þessi mikla ráðgáta? Ljóðmælandinn spyr einfaldlega þeirrar spurningar sem við veltum öll fyrir okkur: Er líf eftir dauðann? Til hvers lifum við og til hvers deyjum við?
Garibaldi er skáldanafn Garðars Baldvinssonar. Hann er fæddur 1954 og hefur gefið út níu ljóðabækur ásamt smásögum og fræðaefni. Ljóð hans fjalla gjarnan um ferðalög eins og í sjónhimnum frá 1997 og smávinir fagrir foldarskart frá 2019. Hann tók einnig saman sögur og ljóð vestur-íslenskra skálda í bók sinni Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1870 til nútímans frá 2006. Garibaldi var formaður Félags ábyrgra feðra í upphafi aldarinnar og skrifaði fjölda greina um þau mál.
3. sæti:
Anna Björg Hjartardóttir hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið „Draumar hefja sig til flugs á heiðinni“.
DRAUMAR HEFJA SIG TIL FLUGS Á HEIÐINNI
Kviknar neisti
bærist andgift
hugarstreymi
í takt sjávarfalla
flóðs og fjöru
Drengur leggur hlustir
við suðurnesjarokkið
og Suðurnesjarokið
fyllir vit með viti
Ljósblik hugmynda lýsir upp
tilveruna og unga sál
örlög verða til
Orka tveggja heima
brúar skil báru og skers
flekar jarðar aðskilja bil milli heima
bera hróður útvarða Atlandshafs um heim
Tónar og taktur nesjanna
fæðir draum
í hjartans öra slætti
drengs sem lifnar allur við
í litlu húsi út í garði
og aðeins eldri stúlka syngur
héðan liggja leiðir til allra átta
Draumar hefja sig til flugs á heiðinni
Umsögn dómnefndar:
Ljóðið Draumar hefja sig til flugs barst undir dulnefninu Héðan liggja leiðir. Draumar hefja sig til flugs á heiðinni. Það má segja að hér komi ljóð „beint frá býli“ eins og sagt er. Ljóðmælandinn er ungur drengur sem hlustar á Suðurnesjarokk og Suðurnesjarok. Þetta tvennt vekur spurningar og skapar örlög hans.
Hann býr við orku tveggja heima, útvarða sem standa sitt hvorum megin Atlandshafsála. Hann er í seilingarfjarlægð við hin óþekktu útlönd búandi hjá stóra flugvellinum þar sem draumar hefja sig til flugs dag og nótt og vegir liggja til allra átta. Hér kemur fram sérstaða fólksins á Suðurnesjum hér áður fyrr sem bjó í íslensku einangruðu sveitasamfélagi með Ameríku í túnfætinum og aðgang að útlöndum við bæjardyrnar.
Sérstaka viðurkenningu dómnefndar fékk Hrefna Ósk Maríudóttir fyrir ljóð sem barst án titils undir dulnefninu Óskhyggja. Höfundur þess sendi fleiri ljóð í keppnina og er dómnefnd er sammála um að höfundur eigi erindi í ljóðlistina.
Bök barna
eru ekki byggð
til að bera bresti
blóðskyldra
Hrefna Ósk Maríudóttir (hún) er hinsegin aktivisti, Forseti Q-félags hinsegin stúdenta, femínisti og skáld. Hún hefur yrkt ljóð og samið sögur frá barnsaldri og ætlar sér að birta meira á næstu misserum.
Dómnefnd skipuðu skáldin: Anton Helgi Jónsson, Gunnhildur Þórðardóttir, Ragnheiður Lárusdóttir, Guðmundur Magnússon og þýðandinn Helga Soffía Einarsdóttir.
Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður bókasafns Reykjanesbæjar, fær þakkir fyrir alla aðstoðina í kringum keppnina.
Þátttaka var mjög góð, framar öllum vonum.
Kertaljós ljósberans eftir Páll Guðmundsson logaði og gerði sína töfra á meðan á athöfninni stóð. Ljósberinn er skúlptúr sem Páll á Húsafelli hannaði sem fyrstu verðlaun þegar keppnin var fyrst haldin og var það Gunnhildur Þórðardóttir sem þá fékk fyrstu verðlaun.
Styrktaraðilar Ljósberans 2023 eru KFC, Penninn Eymundsson, Nettó, Reykjanesbær og Bláa lónið.