Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gargandi gleði með Gyltunum
Föstudagur 28. ágúst 2020 kl. 09:09

Gargandi gleði með Gyltunum

Leiklistarnámskeið fyrir káta krakka í Frumleikhúsinu

Gylturnar hafa á undanförnum árum staðið fyrir leiklistarnámskeiðum fyrir börn og unglinga, sett upp sýningar og staðið fyrir hinum ýmsu uppákomum. Það eru þær Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir sem kalla sig Gylturnar. Í næstu viku hefst fyrsta námskeið vetrarins á þeirra vegum í samstarfi við Leikfélag Keflavíkur og Súluna. Námskeiðið er fyrir krakka fædda frá 2008 til 2015. „Okkur hefur lengi langað að færa aldurstakmarkið niður í elstu börn leikskóla þar sem við teljum þörfina og ekki síður áhugann fyrir hendi. Krakkarnir koma til okkar í Frumleikhúsið einu sinni í viku þar sem við förum í uppbyggilega leiklistarleiki, vinnum með hópefli og förum í undirstöðuatriði í söng. Svo erum við meðvitaðar um að í leiklistartímum getur allt gerst og aldrei að vita nema einhver námskeiðanna endi með lítilli sýningu.“ Þær Guðný og Halla Karen eru báðar þaulvanar vinnu með börnum og unglingum en báðar starfa þær sem kennarar í grunnskólum. „Okkar samstarf við leikfélagið hefur í gegnum tíðina verið farsælt enda erum við báðar búnar að starfa með félaginu til margra ára. Það vilja líka allir sjá líf í leikhúsinu okkar og mjög margir sem hafa verið hjá okkur á námskeiðum hafa svo gengið til liðs við leikfélagið síðar. Við erum í raun að skapa nýja kynslóð áhugaleikara og gefa börnum tækifæri á að kynnast leiklistinni þar sem allt er til alls, fullbúið leikhús með búningum, leikmunum og skemmtilegum leiðbeinendum. Í október er svo planið að vera með unglinganámskeið fyrir 8. bekk og eldri sem endar á skemmtilegri sýningu en það veltur auðvitað á því hvernig aðstæður verða í samfélaginu.“

Nánar auglýst í Víkurfréttum vikunnar. Smellið hér til að sjá auglýsinguna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024