Mannlíf

Garður - hvaðan skildi nafnið vera komið?
Séð til Skagagarðsins í Norð-austur.
Sunnudagur 1. apríl 2018 kl. 06:00

Garður - hvaðan skildi nafnið vera komið?

Þetta er skemmtileg spurning nú í aðdraganda þess að nafn verður fundið á nýtt sveitarfélag sem varð til við sameiningu sveitarfélaganna Sandgerðis og Garðs. Nafnið Garður er reyndar dregið af svokölluðum Skagagarði sem lá milli gömlu jarðanna Kirkjubóls (Sandgerði) og Útskála (Garður). Garðurinn var gríðarlega mikið mannvirki á mælikvarða þess tíma sem hann mun hafa verið byggður en hann var til varnar ökrunum sem voru norðan hans. Þá var loftslag hlýrra á norðurslóðum og akuryrkja meiri en þekkist nú á dögum. Í dag er Skagagarðurinn aðeins ávalur,  grasigróinn hryggur sem best sést við gamla veginn milli Garðs og Sandgerðis.

Talið er samkvæmt jarðfræðirannsóknum að garðurinn sé ævaforn eða frá upphafi tíundu aldar. Hann mun hafa náð mönnum í öxl og var a.m.k. 2 m þykkur. Hann mun hafa verið 1500 m langur. Að innanverðu var hann stöllóttur en utanverðu lóðréttur svo ekki komust húsdýr inn fyrir hann. Um 1900 sást enn móta fyrir ökrunum norðan megin á Garðskaga. Nokkrir af  helstu fræðimönnum Íslands hafa rannsakað garðinn en ítarlegust er rannsókn Kristjáns Eldjárns og er fróðleg grein um „garðinn“ í árbók Ferðafélags Íslands 1977. Þar segir m.a.: „...að garðurinn beri vitni um sameiginlegt félagslegt átak manna í Garði og Kirkjubólshverfi (Sandgerði). Hann var þá aðalvörslugarður fyrir bæði byggðarlög. Innan hans gátu allir bændur verið í friði með tún sín og akra. Það er álit margra fræðimanna og styðst við býsna góðar gamlar heimildir að akuryrkja hafi verið tiltölulega mikil á Suðurnesjum á miðöldum“. Talið er að akuryrkja hafi mikið fallið niður á seinni hluta 13. aldar eftir eldgos á Reykjanesskaga

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Helga Ingimundardóttir,
Leiðsögumaður, Reykjanesbæ.



Á kortinu sést Skagagarðurinn yst á Garðskaga. Þar sést líka merkt inn hvar fundust fornmannagrafir á miðju 19.öld en beinagrind sú er til sýnis í glerskáp í Þjóðminjasafninu.

Skagagarðurinn séður í átt til Kolbeinsstaða og Hafurbjarnastaða.