Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Garðskagaviti byggður á þremur mánuðum á lýðveldisárinu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 22. september 2024 kl. 06:06

Garðskagaviti byggður á þremur mánuðum á lýðveldisárinu

Einn af útvörðum Íslands, sjálfur Garðskagaviti, er orðinn 80 ára gamall. Hann var byggður á tæpum þremur mánuðum og vígður 10. september lýðveldisárið 1944. Það þótti þrekvirki að byggja þennan hæsta vita á Íslandi með þeim tækjum og tólum sem í boði voru á þessum tíma. Tímamótunum var fagnað á Garðskaga í síðustu viku þegar Byggðasafnið á Garðskaga stóð fyrir afmælisfagnaði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, ávarpaði gesti og benti á þá staðreynd að í sveitarfélaginu eru fimm vitar. Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar, flutti ávarp og sagði örlítið frá Garðskagavita. Vitinn skiptir miklu máli í öryggismálum sjófarenda við Reykjanesskagann og vitar eru bráðnauðsynlegir í dag, þrátt fyrir ýmsar tækniframfarir síðustu ára. Ef nýjasta og fullkomnasta tækni eins og GPS-kerfin bregðast, þá er leiðarljós vitanna það sem sjófarendur treysta á.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur á Útskálum, fór með blessunarorð og ræddi ljósið í vitanum. Í tilefni afmælis Garðskagavita voru öll ljós í Útskálakirkju látin loga aðfararnótt 11. september en á árum áður gegndu kirkjur svipuðu hlutverki og vitar, sjófarendur treystu á ljós í landi frá kirkjum, sem voru látin loga í svartasta skammdeginu.

Það var líka sungið fyrir afmælisbarnið en söngsveitin Víkingar og félagar úr Karlakór Keflavíkur tóku lagið. Hjörtur Páll Davíðsson las einnig ljóð Ásdísar Káradóttur, vitavarðar.

Í anddyri safnsins á Garðskaga var boðið upp á kaffiveitingar og harðfisk. Þá er byggðasafnið að selja kerti sem eru afsteypur af vitunum í Suðurnesjabæ og kort með myndum af vitunum eftir Braga Einarsson listamann í Garði.

Upphaf byggingar

Bygging vitans hófst þann 11. júní 1944 á Garðstaðarflös um 215 metrum suðaustur af gamla vitanum (1897) yst á Garðskaga. Hann var reistur á tæplega þremur mánuðum. Nýi vitinn var hafður lengra frá sjónum en sá eldri til að forðast landbrot og særok sem gekk jafnan yfir gamla vitann og dró þannig úr sýnileika hans þegar mest þurfti á að halda í lélegu skyggni.

Lok verka og vígsla vitans

Slökkt var á eldri vitanum frá 28. ágúst til 7. september 1944  og ljósakrónan og ljósgjafinn flutt yfir í nýja vitann. Gamli vitinn var aldrei lagður af heldur endurbyggður og hætt að nota gömlu vitabygginguna og ljóshúsið. Nýja vitabyggingin (1944) var formlega vígð þann 10. september 1944 með útiguðsþjónustu séra Eiríks Brynjólfssonar og hún formlega tekin í notkun.

Hönnun og tæknileg byggingaratriði

Axel Sveinsson, verkfræðingur, var hönnuður hins nýja vita. Tók hann við sem vitamálastjóri 25. október þetta sama ár af Emil Jónssyni, sem sagði af sér sem vitamálastjóri og gerðist ráðherra. Nýi vitinn á Garðskaga er sívalur turn úr járnbentri steypu með 20 cm þykkum veggjum, 23,1 metri á hæð frá palli að ljósi, með 7,5 metra þvermál neðst og 5 metra þvermál efst. Vitinn stendur á 1,5 metra háum palli, og þar ofan á er 4 metra hátt enskt  ljóshús. Garðskagaviti er því hæsta vitabygging landsins, eða 28,6 metrar. Ljóshæð vitans yfir meðalflóðhæð á svæðinu er 31 metri. Upphaflega var vitinn húðaður að utan með hvítu sementi og kvarsi ásamt kalksteinssalla og silfurbergsögnum til þess að losna við málningu og minnka viðhaldsþörf. Árið 1986 var hann kústaður með hvítu viðgerða- og þéttiefni sem hefur haldist þannig síðan.