GARÐMENN ENGAR MJÓLKURKÝR FYRIR NÁGRANNASVEITIRNAR
Njáll Benediktsson fyrrverandi framkvæmdastjóri í Garði er andstæðingur sameiningar og vill ekki sjá sameiningu Gerðahrepps, hvorki við Sandgerði né Reykjanesbæ. „Garðmenn eru engar mjólkurkýr fyrir nágrannasveitirnar og ég vil að Garðurinn verði sjálfstæður áfram“, sagði Njáll í samtali við Víkurfréttir. Við heimsóttum Njál um síðustu helgi og þar fræddi hann okkur um landamerkjamál og lét gamminn geysa um sameingingarmál. Njáll vill ekki að Sandgerðingum eða Reykjanesbæingum sé fært það mikla land sem Gerðahreppur á, á silfurfati.Samstarf á síðustu öldSamstarf sveitarfélaga var mikið á síðari hluta síðustu aldar. Þannig voru Miðnesingar, Garðmenn, Leirumenn og Keflvíkingar sameinaðir undir merki Rosmhvalaneshrepps. Þegar Miðnesingar drógu sig út úr samstarfinu árið 1887 til að stofna Miðneshrepp voru dregin landamerki sem mörkuðu Gerðahrepp hinn eldri.„Landamerkin voru dregin frá Litlu-flös á Skaga eftir hlöðnum garði í Beinhól. Þaðan í baðstofuna Skálareyki og bein lína þaðan í vörðuna Kölku á Háaleiti. Síðan var dregin lína frá Kölku niður í DUUS gróf vestan Keflavíkur“, segir Njáll og bætir við: „Það var síðan árið 1908 sem Keflvíkingar klufu sig frá Garð- og Leirumönnum og stofnuðu Keflavíkurhrepp en Garð- og Leirumenn sameinuðust undir nafni Gerðahrepps, sem fagnaði 90 ára afmæli á síðasta ári.Þrátt fyrir að Keflvíkingar hefðu klofið sig úr samstarfinu var landssvæði Gerðahrepps áfram það sama og byggðin á Bergi heyrði undir Gerðahrepp allt til ársins 1966 að Keflvíkingar fengu alþingismenn til að taka eignarnámi hluta af Gerðahreppi. Njáll var á þeim árum að hefja afskipti af sveitarstjórnarmálum en hann átti sæti í hreppsnefnd Gerðahrepps árin 1966-1970.Ekki sameiningnæstu 10 árin„Ég er Garðmaður og vil vera það áfram. Ég vil ekki að Garðmenn verði mjólkurkýr fyrir nágrannabyggðarlögin. Þess vegna er ég á móti þessari hugsanlegu sameiningu.Sameining sveitarfélaga er mikið tilfinningamál og ég veit að gamlir innfæddir Garðmenn geta ekki sætt sig við sameiningu, enda ástæðulaust að sameinast. Það verður ekki sameining næstu 10 árin. Ekki á meðan þessir gömlu Garðmenn lifa.Gerðahreppur á töluvert mikið af eignarlandi sem væri fært öðru sveitarfélagi á silfurfati með sameiningu“, segir Njáll og bendir á að t.a.m. eigi Gerðahreppur land Gufuskála í Leiru sem sé eitt fallegasta byggingarland á Suðurnesjum með frábæru útsýni yfir Faxaflóa, Reykjanesfjallgarðinn, Snæfellsjökul, fjallgarða Snæfellsnes, Hafnarfjall og Esjuna.Njáll bendir einnig á að Gerðahreppur eigi fleiri landsspildur, bæði í Garði og Leiru. Þannig eigi Gerðahreppur land við höfnina, undir íþróttahúsinu og sundlauginni og hafi m.a. keypt land í Útskálalandi af sjálfum Pétri postula en það sé til skjalfest á Landsbókasafni að Pétur postuli eigi land í Gerðahreppi.Meiri fiskvinnsluUm mannlífið í Garði sagði Njáll að það blómstri, enda væri allt til staðar sem íbúarnir þörfnuðust. „Hér er verið að byggja nýja leikskóla og hér er myndarlegur skóli ásamt íþróttahúsi og sundlaug. Ég get ekki séð að þjónustan hér í Garðinum sé eitthvað lakari en í nálægum sveitarfélögum“.Njáll vill þó sjá fleiri öflugri fyrirtæki í fiskvinnslu í Garðinum. „Hér er þörf á smábátahöfn og helst vildi ég sjá hana grafna inn í síkið. Það er ekkert meira verk en þegar Grindvíkingar grófu sig inn í Hópið. Þá segir Njáll að það eigi að fá fólk til að setjast að í Garðinum með því að bjóða upp á ódýrt byggingarland.Kýs frekar SandgerðiAð endingu spurðum við Njál þeirrar spurningar hvorn valkostinn hann tæki ef Gerðahreppi yrði gert að sameinast annað hvort Sandgerði eða Reykjanesbæ:„Þá vildi ég heldur sameinast Sandgerði. Ég tel þá betri kost en ég vona að það þurfi ekki að koma til þess að við sameinums öðru sveitarfélagi“, sagði Njáll Benediktsson fyrrum framkvæmdastjóri í Garði að endingu.