Garðbúum fjölgað um fjögur prósent
Það sem af er árinu 2016 hefur íbúum í sveitarfélaginu Garði fjölgað um tæp 4%. Samkvæmt Þjóðskrá voru skráðir alls 1.425 íbúar í Garði þann 1. desember 2015. Samkvæmt bráðabirgðatölum þann 18. júlí sl. var fjöldi íbúa í sveitarfélaginu orðinn 1.480. Íbúum hefur því fjölgað um alls 55 frá 1. desember sl., eða um 3,9% á sjö mánuðum. Frá þessu er greint á heimasíðu bæjarins.
Mikil sala hefur jafnframt verið á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á síðustu mánuðum og munar þar mest um að Íbúðalánasjóður hefur selt mikið af þeim eignum sem voru í eigu sjóðsins á undanförnum árum. Þá hafa verktakar og aðrir aðilar selt eignir sem höfðu staðið ónotaðar. Ef fram fer sem horfir gæti íbúafjöldi í sveitarfélaginu orðið nálægt 1.500 í lok ársins.