Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Garðarshólmi sinnir listagyðjunni í nýjum fötum
Tobba og Garðar með viðurkenningarskjalið sem Garðar fékk árið 1975 fyrir útlit hússins. VF-myndir/pket.
Mánudagur 18. september 2017 kl. 06:00

Garðarshólmi sinnir listagyðjunni í nýjum fötum

Húsin við Hafnargötuna, aðal verslunargötu Keflavíkur vekja jafnan athygli og hafa í gegnum tíðina ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Nýlega var lokið við endurbætur á verslunarhúsnæði við Hafnargötu 18 sem var í rúma sex áratugi frá 1915 til 1977 í eigu aðila úr sömu fjölskyldunni. Margir núlifandi Suðurnesjamenn muna eftir versluninni Garðarshólma í húsinu en skilti með því nafni var sett á húsið núna þegar lagfæringum lauk, rétt fyrir Ljósanótt, fjörutíu árum eftir að rekstri Garðarshólma var hætt.

Tobba listakona eða Þorbjörg M. Óskarsdóttir rekur nú listagallerí á neðri hæð hússins sem er í eigu Sverris Sverrissonar en hann vildi rifja upp góða tíma Garðarshólma með því að setja skilti með nafninu á framhlið hússins eftir endurbætur á því. Á efri hæðinni er íbúð sem Tobba býr í og á. Hún opnaði gallerí um mitt sumar og er afar ánægð með endurbætur á húsinu en rekstur hófst í því fyrir rétt tæpri öld en árið 1915 opnaði verslun Þorsteins Þorsteinssonar sem jafnan var kölluð Þorsteinsbúð.

Þorsteinn var einn af frumkvöðlum að stofnun Keflavíkurhrepps árið 1908 og varð fyrsti oddviti hreppsnefndar. Eftir að Þorsteinn lést árið 1939 tóku við rekstrinum þeir  Elías sonur Þorsteins og uppeldissonur hans Þorgrímur St. Eyjólfsson og ráku verslunina til ársins 1956. Þremur árum síðar kom þriðja kynslóðin til sögunnar að Hafnargötu 18 þegar barnabarn Þorsteins, Garðar Sigurðsson, þá nýfluttur til Keflavíkur, hóf rekstur verslunarinnar Garðarshólma eftir gagngerar breytingar á húsnæðinu. Húsgagna- og leikfangaverslunin Garðarshólmi var starfrækt þar til ársins 1972 en þá flutti húsgagnadeildin að Hafnargötu 32 og Hafnargata 18 var tekin algerlega undir leikfangaverslun. Þessar verslanir rak Garðar til ársins 1977 þegar hann og fjölskylda hans fluttu til Bandaríkjanna. 

Tobba bauð Garðari að koma og kíkja á breytingar á húsnæðinu í vikunni fyrir nýliðna Ljósanótt því húsið fékk aftur nafnið Garðarshólmi og var sett upp skilti með nafninu fyrir ofan innganginn. Garðar var að vonum sáttur með það og sagðist ánægður að sjá húsið aftur til prýði. Garðar fékk á sínum tíma Sævar Helgason heitinn til að skreyta húsnæðið og vakti það athygli fyrir útlitið. Garðar fékk árið 1975 viðurkenningu frá dómnefnd skrúðgarða og umhverfis í Keflavík fyrir frumleik og smekkvísi á húsinu. Svo skemmtilega vill til að Tobba listakona er fædd sama ár. Þá eru á þesssu ári fjörutíu ár frá því Garðar hætti verslunarrekstri í húsinu.

Garðar segir að það hafi verið ákaflega skemmtilegur tími þegar hann var í verslunarrekstri í Keflavík. „Já, það var mjög ánægjulegur tími og gaman að vera í verslunarrekstri í gamla daga,“ sagði Garðar en hann og fjölskylda hans bjuggu líka í húsinu á árunum 1959 til 1972. Nú fær listagyðjan að njóta sín í endurvöktum Garðarshólma í faðmi Tobbu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tobba og Garðar með listakonuna Sossu á milli sín en hún kíkti á breytingarnar og skoðaði galleríið hjá Tobbu.

Svona leit Garðarshólmi út á sínum tíma. Að neðan er mynd af Rannveigu dóttur Garðars, Nanný, við afgreiðslu í versluninni í „gamla“ daga.