Gangbraut fjölbreytileikans fékk andlitslyftingu
Regnbogabrautin sem liggur fyrir framan ráðhús Reykjanesbæjar, gangbraut fjölbreytileikans, fékk andlitslyftingu í góða veðrinu í vikunni en hún er máluð út frá fána fjölbreytileikans sem er nýttur í mannréttindabaráttu víðsvegar um heim. Reykjanesbær vinnur undir formerkjum slagorðsins „í krafti fjölbreytileikans“ og fagnar þeirri mannréttindabaráttu sem regnbogafáninn stendur fyrir.
Fjölbreyttur hópur fulltrúa úr Reykjanesbæ, sem endurspeglaði fjölbreytileika mannlífsins, tók þátt í að mála gangbrautina. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, tók þátt ásamt Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, forseta bæjarstjórnar, Ragnari Birki Bjarkarsyni og Guðrúnu Maríu Þorgeirsdóttur frá Hinsegin Plútó. Eins voru hjónin Sliman Hidefi, sérfræðingur frá alþjóðateymi Reykjanesbæjar, og Luni Hidefi, Borgar L. Jónsson frá öldungaráði, Hreggviður Hermannsson frá vinnuskólanum, Unnur H. Ævarsdóttir frá notendaráði fatlaðs fólks og vinirnir Ólafur Björn Jónsson (átta ára) og Garðar Flóki Matthíasson (sex ára).
Verkefnið var leitt af listamanninum Krumma, Ingva Hrafni Laxdal, og konu hans, Kristínu Helgu Magnúsardóttur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með þegar málningarvinnan hófst og tók meðfylgjandi myndir sem eru í myndasafni neðst á síðunni.