Ganga Reykjanesbrautina í nótt til Reykjavíkur
Sjö vaskir piltar úr fjórða bekk Verzlunarskóla Íslands hófu í kvöld góðgerðargöngu frá Reykjanesbæ en þeir ætla að ganga í skólann og stefna að því að vera mættir tímanlega í fyrramálið klukkan tíu mínútur yfir átta. Þeir hafa safnað áheitum frá öðrum nemendum og kennurum skólans, og mun allur ágóðinn renna til Mæðrastyrksnefndar, eða um 150.000 krónur. Uppátækið er þáttur í árlegri góðagerðarviku í Verslunarskólanum. Í fyrra gengu strákarnir frá Mosfellsbæ en eru sem sagt á leiðinni núna frá Reykjanesbæ.
Þeir Andri, Óttar, Sigvaldi, Egill, Ingólfur, Gunnar og Stefán segjast aðspurðir hafa undirbúið sig vel líkamlega fyrir erfiða gönguna en hafi þó ekkert hafa æft, enda gildi hugarfarið 90% og líkamlegt úthald 10%. Aðrir styrktaraðilar sjömenninganna voru Langbest í Reykjanesbæ sem gaf þeim að borða, Vífilfell sem gaf þeim orkudrykki og Dynjandi, sem gaf strákunum gul endurskinsvesti.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson