Ganga Ísland horn í horn
„Við hétum því vinkonurnar fyrir nokkrum árum að fara í alvöru gönguferðir annað hvert ár,“ segir Kristín Jóna Hilmarsdóttir, göngugarpur úr Reykjanesbæ sem fyrir réttri viku lagði upp í gönguferð með fimm vinkonum sínum frá Hornvík á Vestfjörðum til Eystri Hornvíkur rétt við Höfn í Hornafirði. Gangan er rúmir 600 kílómetrar og tekur um fimm vikur. Hópurinn kallar sig Sexurnar horn í horn og þær má finna á Facebook.
Kristín Jóna segir að þær hafi oft rætt um að fara þessa leið, því hún hafi aldrei verið gengin áður svo vitað sé. Reyndar var annar hópur göngugarpa að ljúka við leiðina þegar þær vinkonurnar voru að byrja gönguna en sá hópur hóf förina þar sem þær enda og fór yfir jökul, þannig að leiðin er ekki alveg sú sama.
Nokkrar hindranir eru á leiðinni. T.a.m. Skjálfandafljót en þar þarf að taka hálfs dags útúrdúr til að fara yfir á brú. Eiginmaður einnar í ferðinni er mikill útivistarmaður og hefur sett gönguleiðina inn á GPS-tæki og þar er nákvæm áætlun um dagleiðir og hvar skuli fara. Þá hafa þær ávallt um þrjár leiðir að velja, allt eftir veðri og aðstæðum.
Síðast þegar Kristín Jóna fór í langferð um Ísland þá gengu þær þrjár vinkonur frá Reykjanesi og að Fonti á Langanesi. Á þeirri gönguleið bættust þrjár vinkonur í hópinn síðustu vikuna. Nú eru þessar sex vinkonur að „krossa“ Ísland en ætlunin er að reisa vörðu á miðju landinu þegar þær fara yfir þá gönguleið þar sem þær voru síðast á ferð fyrir tveimur árum.
Göngugarparnir munu bera með sér vistir í ferðinni en á nokkrum stöðum í ferðinni fá þær nýjar vistir. Þá bera þær með sér eitt sex manna tjald sem þær sofa í um nætur. Tjaldið er sérstaklega flutt inn til fararinnar en bílaleigan Geysir styrkti þær með því að leggja til tjaldið. Það er sérstaklega hannað til svona farar og eru m.a. göngustafir notaðir til að halda því uppi. Þær munu einnig nýta sér skála sem eru á leiðinni og hafa pantað gistingu í nokkrum slíkum á leiðinni yfir landið.
Þegar þetta viðtal birtist þá er erfiðasti hluti leiðarinnar að baki en Vestfirðirnir eru erfiðastir fyrir fótinn. Þar er talsverð fjallganga og einnig var þar nokkur snjór enn á gönguleiðinni.Á þjóðhátíðardaginn fengu þær kjötsúpu og ætluðu að fá sér hamborgara og franskar í Hólmavík.
Undirbúningur fyrir þetta ferðalag hefur verið langur. Þær hittast reglulega og labba og hafa einnig verið í hreyfingu í allan vetur. Kristín Jóna sagði sig vera í sínu besta formi um ævina. Hún sagði það erfiðasta við svona göngu vera þyngdina sem þær bera á bakinu og að reyna að sleppa við að fá blöðrur. Það er hins vegar óhjákvæmilegt. Hún sagði að síðasta ganga yfir Ísland hafi verið mikill lærdómur. Nú kunni þær að meðhöndla blöðrur, sprengja þær og teipa.
„Þetta er bara gaman. Við vöknum hressar á morgnana og erum að labba allan daginn. Við tökum tillit til hinna í ferðinni og hvílum á tveggja tíma fresti. Við borðum vel. Maturinn er ekkert spennandi, orkustangir, þurrmatur og Herbalife. Þá borðum við einnig harðfisk og hrökkkex með sýrópi. Það þarf að vera létt að bera matinn og þann þarf að gefa okkur kraft“.
Þrátt fyrir einhæft og óspennandi fæði mestan hluta fararinnar þá eru gulrætur inn á milli. Þannig var kærkomið að fá kjötsúpuna í Ófeigsfirði og tilhlökkun að komast í sjoppufæðið á Hólmavík. Þá verður tekið á móti gönguhópnum á nokkrum stöðum og slegið upp smá veislum. Þannig er búið að skipuleggja grillveislu í Laugafelli og þannig mætti áfram telja. Gengið verður alla daga og áætlað að ferðinni ljúki um miðjan júlí í Eystri Hornvík nærri Höfn.
Nokkrir aðilar hafa styrkt þær til fararinnar. Geysir lagði til tjaldið, 66°Norður leggur þeim til regnfatnað, Herbalife styrkti þær í mat og Bláa lónið lagði þeim til húðkrem til fararinnar, enda getur verið gott að mýkja og næra húðina á svona löngu ferðalagi.