Gamlir magnarar og gítargarmar út um allt
Bílamálarinn Júlíus Gunnlaugsson var á kafi í tónlistinni í gamla daga en hann dundar sér núna við að gera upp og laga gamla gítara í vinnuaðstöðu sem hann hefur komið sér upp í bílskúrnum sínum.
Víkurfréttir litu inn í skúrinn hjá Júlla og spurðu hvort hann væri kannski ennþá að brasa eitthvað í tónlistarbransanum.
„Ekki eins mikið og ég vildi, það er erfiðara þegar maður er með fjölskyldu og í vinnu – en tónlistin hefur alltaf loðað við mig. Það voru alltaf gamlir magnarar og gítargarmar út um allt í kringum mig. Þetta hefur einhvern veginn alltaf verið partur af mér og maður spilaði rosalega mikið áður fyrr, byrjaði mjög ungur og spilaði allar helgar. Ég hef verið svona sextán ára og okkur var svindlað inn á staði í Reykjavík til að spila, við vorum það ungir.
Með tímanum minnkaði þetta, það er ekki hægt að vera að spila á fullu og eiga fjölskyldu. Það er einhvern veginn þannig enda eru mjög fáir atvinnutónlistarmenn á Íslandi.“
Júlli byrjaði að læra á blásturshljóðfæri í tónlistarskóla en færði sig svo yfir á trommurnar og var trommuleikari á hljómsveitarárunum. Hann hefur alltaf glamrað á gítar og er nú byrjaður að gera við og gera upp gítara í skúrnum hjá sér.
„Ég er að taka upp þráðinn aftur. Ég hef alltaf verið að pukrast eitthvað með gítara, laga þá og breyta. Einhvern veginn voru allir gítararnir farnir að taka svo mikið pláss þannig að ég setti þetta aðeins á pásu. Svo fór ég að ná í þá einn og einn úr geymslu, fór líka að laga hljóðfæri fyrir aðra og mála jafnvel. Það er eitthvað sem heillar mig við gítara og ég hef rosalega gaman af því að handleika þá.
Fyrir mig er svo mikil hvíld í því að fara út í skúr, setja góðan blús á fóninn og fikta í einhverjum gítargarmi,“ segir Júlli og bætir við að þetta sé hans íhugun.
Hvar kemstu yfir þessa gítargarma?
„Það er mjög mikið um að menn sem eru að laga til hjá sér hringja og spyrja hvort ég vilji eiga gítar sem þeir eru þá jafnvel að fara að henda. Þannig að ég hef fengið marga gefins og einhverja keypti ég áður fyrr, ég hef hins vegar ekkert verið mikið að selja þá aftur. Þeir safnast bara upp.
Ég hef t.d. smíðað tvo gítara fyrir æskuvin minn sem býr í bænum og hann spilar mikið á þá. Það er svolítið eftirsjá í þeim, þetta eru allt börnin manns. Þegar maður er búinn að vera að pússa, laga og breyta í langan tíma þá er einhvern veginn erfitt að horfa á eftir þeim.“
Júlli starfar sem bílamálari og því liggur beinast við að spyrja hvort sú menntun nýtist ekki vel í gítarviðgerðurm.
„Jú, vissulega er margt líkt með því. Ég hef samt þurft að lesa mér mikið til um hvernig best er að mála hljóðfæri til að koma í veg fyrir t.d. að loka hljóminn inni, nota réttu lökkin og annað á þeim nótum. Ég hef mjög gaman af að lakka og leika mér að því að gera tilraunir með alls kyns útfærslur.“
Gítar með bítlasögu
Júlli heldur mikið upp á gítar sem honum áskotnaðist af tegundinni Höfner en það er saga á bak við þessa tilteknu útgáfu af gítar.
„Paul McCartney hafði eignast Höfner-bassa á þeim tíma sem Bítlarnir voru að spila í Hamborg og þegar þeir byrjuðu að slá í gegn vildu allir eiga gítar og bassa eins og Bítlarnir spiluðu á. Eftirspurnin eftir gíturum frá Höfner varð það mikil að ekki var hægt að anna henni, aðallega vegna þess hve tímafrekt það var að lakka boddíið. Framleiðsluferlið var mjög langt, það þurfti að lakka nokkrar umferðir á hvern gítar og bíða í sex, sjö vikur á milli umferða.
Til að bregðast við eftirspurninni þá fóru þeir að leðurklæða þá, reyndar var það bara gervileður sem þeir betrekktu gítarinn með. Það var nánast hægt að gera það á einum degi og á meðan voru þeir að stækka verksmiðjuna. Ég held að stækkunin hafi tekið um tvö ár og á meðan klæddu þeir gítarana með svona pleðuráklæði,“ segir Júlli og hlær.
„Svo fóru þeir að lakka þá aftur þegar búið var að stækka verksmiðjuna og málningaraðstöðuna. Þannig að í dag er ekkert mikið til af þessum gíturum og þeir hafa þar af leiðandi söfnunargildi fyrir rétta aðila – en í augum annarra færi hann beint á haugana.“
Góð nýting og jöfn skipting
Júlli og konan hans, Elín Ása Einarsdóttir, tóku bílskúrinn hjá sér í gegn og skiptu honum sín á milli en Elín er hársnyrtimeistari og setti upp rakarastofu í sínum hluta skúrsins.
„Við skiptum honum jafnt á milli okkar, ég er með einn fjórða undir mitt en svo er rakarastofan í hinum hlutanum. Ég get auðvitað ekki verið að vinna hér á meðan hún er með kúnna í stólnum en þetta er góð nýting á skúrnum – nema hlutföllin mættu vera betri,“ sagði Júlli brosandi að lokum.