Gamlir Econolænar gerðir að frábærum ferðabílum
„Unum okkur mjög vel í bílskúrnum,“ segja þrír bílabræður úr Garðinum.
„Þetta er skemmtilegt áhugamál og frábær félagsskapur. Við unum okkur mjög vel í bílskúrnum,“ segja bræðurnir og Garðmennirnir Jón, Ólafur og Magnús Jónssynir.
Það er víða dundað og grúskað í bílskúrum á Suðurnesjum og þeir bræður eru í þeim hópi. Kannski aðeins ýktari en margir aðrir því þeirra áhugamál er að gera upp fjalla- eða ferðabíla. Eyða hundruðum klukkustunda við iðjuna. Í bílskúrnum við Iðngarða í Garði eru þeir með þrjá Ford Econoline bíla í endurgerð. Einn er kominn á götuna og aðeins nokkur smáatriði sem á eftir að ljúka en tveir eru skemmra á veg komnir. Stefnt er að því að annar þeirra komi á götuna í sumar. Verði tilbúinn fyrir ferða- og veiðisumarið 2013.
Bræðralagið er í fullu gildi í bílskúrnum því þeir hjálpast að við lagfæringar bílanna. Bræðurnir eru fæddir á Akranesi en hafa allir búið stærstan hluta ævinnar í Garðinum. Ólafur og Jón Einar eru rétt rúmlega fimmtugir tvíburar en Magnús er fjórum árum yngri og verður fimmtugur á næsta ári. „Við vinnum mikið saman í öllum bílunum en svo er hver og einn einnig að vinna í sínum bíl. Það er misjafnt hvar styrkleikar og kunnátta okkar liggur. Við leggjum bara áherslu á að sameina krafta og kunnáttu,“ segja þeir aðspurðir um verklagið í bílskúrnum innan um þrjá „Ekonolæna“.
Þeir eru ekki lærðir í bílaviðgerðum en segjast hafa þetta í blóðinu, fikti sig áfram og fylgist vel með hjá öðrum líka hvernig hlutirnir eru gerðir. Segjast ekki fara í tölvuna og gúgla eða fara á Youtube ef það vanti upplýsingar. Hlægja að spurningunni.
Econlæninn vinsæll
Sögurnar af því hvernig þeir eignuðust bílana eru misjafnar og þeir lifa sig inn í þær þegar þær segja frá þeim. Þeir leita uppi eldri gerðir af Econoline bílum sem þeir segja að sé sífellt erfiðara að verða sér úti um. „Reynslan af þessum bílum er mjög góð þannig að eftirspurnin er orðin mjög mikil, eiginlega þannig að framboðið er mjög lítið. Verðið hefur því hækkað. „Ég bauð í minn í fyrra og sagði við eigandann að ég ætti bara þrjúnhundruð þúsund kall. Hann vildi fá helmingi meira en svo sagðist hann vilja koma hingað suður eftir til að sýna mér bílinn. Hann kom og við hittumst á Fitjum í Njarðvík. Ég benti honum á nokkur atriði sem voru ekki í lagi og sagðist ekki eiga meiri pening. Á endanum samþykkti hann tilboðið,“ segir Magnús og brosir.
Aðspurðir um það hvernig þeir verði sér úti um varahluti segir Ólafur að þeir kaupi það héðan og þaðan og stundum endi það þannig að þeir kaupi hræ sem þeir nýta varahluti úr.
„Við byrjum á því að skera allt ryð úr bílunum og svo er tjargað vel undir í botninn og skipt um allt sem þarf að skipta um. Það er allt tekið i gegn, hvert einasta snytti í bílnum. Svo er innréttað með leðurlíki. Við setjum upp bekk og borð og húsabílainnréttingu. Við útbúum bílana þannig að þetta verða frábærir ferðabílar.“
En fá þeir alla vinnuna sem þeir leggja í bílana greidda í hærra bílverði?
„Nei, það fáum við aldrei en við höfum þó haft ágætt upp úr einum og einum bíl. Ef við reiknum út tímana sem fara í vinnuna er kaupið eflaust ekki hátt enda snýst þetta ekki um það. Við erum að þessu til að hafa gaman af og til að eiga góða ferðabíla,“ segir Ólafur.
Hinn tvíburinn, Jón Einar, tekur undir það og segir okkur sögu frá því þegar hann vildi kaskótryggja nýendurgerða bílinn. Fyrstu svör tryggingafélagsins hafi verið á þá leið að það væri ekki hægt því bíllinn væri svo gamall. Eftir að starfsmaður trygginganna hafði skoðað bílinn var allt annað hljóð í strokknum. Kaskótryggingin samþykkt að sjálfsögðu.
Frábærir ferðabílar
Jón Einar segir aðspurður að þeir útbúi bílana þannig að það sé hægt að sofa í þeim og ferðast á þægilegan hátt. Innréttingarnar séu þannig að fjallabílarnir séu í raun líka húsbílar. Besta orðið sé í raun ferðabílar. „Stangveiði er t.d. áhugamál hjá okkur öllum og það er auðvelt að fara um landið í vel búnum bílum. Þeir komast nánast allt enda á stórum dekkjum og með öflugar og stórar dísilvélar og ég er með bílbelti fyrir 8 manns,“ bætir Jón Einar við og sýnir fréttamönnum VF inn í bílinn sinn. „Hér er hægt með einu handtaki leggja niður setubekki og borð og útbúa hjónarúm. Í bílinn er komin húsabílainnrétting, gasmiðstöð, skápar og og húsbílaeldhús. Frúin saumaði svo gardínur svo þetta liti vel út. Það er ekki leiðinlegt að vakna í íslenskri náttúru, líta út í fegurðina á meðan maður lagar sér nýtt kaffi,“ segir Jón og giskar á að það hafi tekið á þriðja ár að klára bílinn. Bætir svo við að hálfbróðir þeirra, Eyþór, sjái um að sprauta bílana. „Hann er gerir það vel þó hann hafi aldrei lært bílasprautun,“ segir Jón.
Magnús er sjómaður en á milli túra fara margir tímar í að breyta Fordinum sem kom í skúrinn í fyrra eftir hagstæð kaup á Fitjunum. En hvernig útskýrir hann svona bíladellu?
„Ég held að ég hafi fæðst með blöndung og alternator í höndunum, svei mér þá. Ekkert golf en veiðin heillar. Við höfum farið í nokkra frábæra túra í Veiðivötn og víðar.“
Bræðurnir fóru með tíðindamenn VF í bíltúr í Garðinum, nettan rúnt út á Garðskaga. Það er ljóst á öllu að bíladellan á hug þeirra allan. Aðspurðir hvort þetta sé ekki dýrt áhugamál að gera upp gamla bíla, neita þeir því. Uppgerðir bílarnir verði verðmætari eftir breytingar.
En hvað með eldsneytiseyðslu?
„Svona bílar eyða náttúrulega meira en smábíll en við keyrum á þægilegum ferðahraða í lengri túrum, 80-90 km. þannig að eyðslan sé sem minnst. Eyðslan er að jafnaði um 18 lítrar á hundraðið en minnkar í langkeyrslu. Þetta eru stórir og þungir bílar og því er eðlilegt að eyðslan sé nokkur en ekkert sem við missum svefn yfir. Þetta er svo gaman“.
Þeir bræður voru í sviðsljósinu í Suðurnesja-magasíni VF sem hægt er að sjá í VefTV vf.is, á Kapalrásinni og á ÍNN.
(Það varð smá nafnaruglingur á þeim bræðrum á tveimur stöðum í viðtalinu í prentútgáfu Víkurfrétta. Þeir bræður eru beðnir velvirðingar á þeim mistökum.)
Hér að neðan má sjá myndir úr bílagrúski þeirra bræðra.
-
-
-
-
-
-
-