Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gamla Grágás verður félagsmiðstöð ungs fólks
Þessar stúlkur voru að mála búðina í húsinu þegar ljósmyndari blaðsins hafði þar viðkomu.
Föstudagur 20. júlí 2012 kl. 10:41

Gamla Grágás verður félagsmiðstöð ungs fólks

Nú er unnið að því að gera gamla Grágásar-húsið við Vallargötu í Keflavík að félagsmiðstöð fyrir ungt fólk. Verkefnið er samstarf Keflavíkurkirkju og Hjálpræðishersins og er hluti verkefnisins Energí og Trú, sem er starfrækt fyrir ungt fólk í Keflavíkurkirkju. Það ER verkefni fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára sem miðar að því að auka virkni unga fólksins og farið var af stað með í fyrra. Hjördís Kristinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Keflavíkurkirkju, sagði í samtali við Víkurfréttir að í  starfi Energí og Trúar sl. vetur hafi eitt leitt af öðru. Þegar námskeiðum var lokið þá fundu þátttakendur í starfinu að það vantaði einhvern stað til að koma saman á. Notast var við aðstöðu hjá KFUM & -K því aðstaða í kirkjunni er umsetin. Þar eru erfidrykkjur og ýmis önnur starfsemi og því vantaði miðstöð, miðsvæðis í bænum fyrir þennan hóp.

„Unglingahópur í kirkjunni sótti um styrk til Evrópu unga fólksins til að opna vímuefnalaust kaffihús. Þegar sá styrkur barst var boltinn farinn að rúlla. Á sama tíma var Linn Miriam, sjálfboðaliði á vegum AUS, að koma frá Noregi til að starfa með Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ. Við höfðum einnig heyrt það á ungmennum að þau langaði til að vinna við breytingar á gömlum fatnaði og fá aðstöðu til þess að breyta honum og selja. Við ákváðum því að slá tvær flugur í einu höggi þegar gamla Grágásarhúsið kom upp í hendurnar á okkur. Nú erum við að standsetja það og koma upp aðstöðu annars vegar fyrir kaffihúsið og hins vegar til að vinna með fatnaðinn og  búð til að selja hann í,“ segir Hjördís.

Hún segir fyrirtæki og einstaklinga hafa sýnt mikinn velvilja og gefið húsgögn eins og borð, stóla og sófasett og fleira sem þarf til standsetningar á gömlu húsi. Þá hafi þau fengið gefins eldhúsinnréttingu með öllum tækjum, svo eitthvað sé nefnt.

Í búðinni verður seldur fatnaður sem ungmennin ætla að breyta og/eða endurhanna og þá verður þar einnig seldur sérstakur fatnaður sem berst Hjálpræðishernum. Hann fer þá ekki til sölu í fatasölu Hjálpræðishersins, heldur verður boðinn til sölu í búðinni í gömlu Grágás.

Ýmsar hugmyndir eru með nýtingu efri hæðarinnar í húsinu en þar eru í dag margar skrifstofur eða herbergi. Þar verður m.a. komið upp saumastofu eins og áður sagði. Þá mun kórastarf sem starfrækt var í FS á síðasta ári og er samstarfsverkefni kóranna á Suðurnesjum undir stjórn Arnórs Vilbergssonar, organista fá æfingaaðstöðu á efri hæðinni og vonandi verður hægt að fara af stað með ýmiskonar hljómsveitastarfsemi.

Þá eru hugmyndir um að setja upp markaðstorg einu sinni í mánuði þar sem ungt fólk getur selt ýmsan varning. Þá eru aðstandendur verkefnisins opnir fyrir frekari hugmyndum um nýtingu hússins.

Mikil vinna er framundan við endurnýjun á húsinu, svo sem að rífa, smíða og mála. Á Fésbókinni er hópur sem heitir „Grágás“ þar sem haldið er utan um verkefnið. Hópurinn er lokaður en fólk getur óskað eftir aðild að hópnum og kynnt sér hvað má gera til að leggja verkefninu lið eða hjálparhönd. Einnig má hafa samband við Keflavíkurkirkju ef fólk hefur áhuga á því að vera með.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagsmiðstöð unga fólksins verður í þessu húsi við Vallargötu 14 í Keflavík.