Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Gaman í vinnunni í hálfa öld
Miðvikudagur 16. janúar 2013 kl. 10:00

Gaman í vinnunni í hálfa öld

16 ára gömul og nýútskrifuð sem gagnfræðingur var Unnur Þorsteinsdóttir ráðin til starfa hjá Apóteki Keflavíkur, eins og það hét í þá daga. Þá var Johan Ellerup apótekari. Síðan kom Benedikt Sigurðsson og á eftir honum Sigurður Gestsson. Síðan breyttist nafnið í Lyf og heilsa Keflavík. Unnur varð 67 ára síðastliðinn aðfangadag og vinnuferli hennar því að ljúka. Öll starfsævin hefur verið undir sama þaki, við Suðurgötu 2 þar sem apótekið hefur verið til húsa en nú ber það nafnið Lyf og heilsa.

Unnur hefur unnið við afgreiðslustörf og ekki lagt lyfjafræðina fyrir sig enn sem komið er, þrátt fyrir að hún búi yfir mikilli þekkingu. „Ég veit soldið,“ segir Unnur og hlær þegar blaðamaður spyr að því hvort hún sé ekki í raun orðin hámenntuð í þessum fræðum. Þannig var það þegar Unnur var að hefja störf að lyfin voru blönduð á staðnum og Unnur minnist þeirra tíma með hlýhug. „Það var mjög gaman hérna þegar efnaverksmiðjan var í gangi og maður þurfti að telja hvern einasta dropa og hverja pillu fyrir sig,“ en miklar breytingar hafa orðið í lyfjabransanum og Unnur hugsar til þess tíma þegar allt þurfti að reikna með blaði og blýanti, fyrir tíma excel og tölva.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnur hefur afgreitt nokkrar kynslóðir og kynnst mikið af skemmtilegu og áhugaverðu fólki á ferlinum. Samstarfsfélagarnir hafa alltaf verið jákvæðir og skemmtilegir að hennar sögn og hún hefur aldrei látið það hvarfla að sér að hætta eða breyta til, fyrr en nú þegar hún er komin á aldur. „Ég er mjög hamingjusöm að geta hafa unnið öll þessi ár, og hafa fundist skemmtilegt í vinnunni. Það eru ekkert allir sem fá að vinna svona lengi,“ segir Unnur sem lítur stolt yfir farinn veg.

Ásgeir Ásgeirsson lyfjafræðingur sagði það gríðarlega mikilvægt fyrir apótek að hafa reynslumikið starfsfólk og ljóst að fyrirtækið væri að missa mikið hér við þessi tímamót þegar Unnur snýr sér að öðrum málum. Hann sagði þó að enn væru henni allar dyr opnar ef henni skyldi snúast hugur. Unnur ætlar þó að reyna að finna sér eitthvað til dundurs en viðurkennir að henni þyki skrýtið að vera að hætta störfum. Hún telur að líklega verði hún tíður gestur á kaffistofunni á Suðurgötu 2. Að lokum vildi Unnur koma þökkum til allra sinn viðskiptavina í gegnum árin.

Frá vinstri: Sigurður Gestsson, Sigríður Albertsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson, María Ingólfsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Elísabet Guðjónsdóttir, Þórdís Herbertsdóttir, Unnur Þorsteinsdóttir, Ásta Stefánsdóttir.


 

Frá vinstri: Sigurður Gestsson, Ásgeir Ásgeirsson, Unnur Þorsteinsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Þórdís Herbertsdóttir.

Unnur Þorsteinsdóttir sker köku frá vinnufélögunum í tilefni dagsins.

Frá Þórdís Herbertsdóttir og Unnur Þorsteinsdóttir.