Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gaman að vinna í fiski
Föstudagur 25. janúar 2019 kl. 07:00

Gaman að vinna í fiski

Finnst mikilvægt að tala íslensku við Íslendinga

Suðurnesin muna fífil sinn fegurri á sviði sjávarútvegs en undanfarin ár hefur fiskvinnsla og bátaútgerð dregist mikið saman á svæðinu. Nýfiskur er eitt af stærri fiskvinnslufyrirtækjum á svæðinu en það er staðsett í Sandgerði.

Mjög fáir Íslendingar starfa við fiskvinnslu í dag miðað við fyrri ár en atvinnugreinin er samt sem áður mikilvæg fyrir þjóðina og fiskur hefur verið ein helsta útflutningsvara landsins. Áður störfuðu Íslendingar við fiskvinnslu en í dag eru það nær eingöngu útlendingar sem starfa við þessa mikilvægu atvinnugrein okkar og færa landinu björg í bú.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Duangdee og Pim Sinpru eru hjón sem starfa bæði hjá Nýfiski og hafa verið búsett á Íslandi mörg undanfarin ár. Við tókum þau tali á vinnustaðnum þeirra.

Fluttu úr sólinni

Duangdee kom fyrst sautján ára gamall til Íslands frá Tælandi árið 1995 til að passa barn fyrir systur sína sem bjó í Reykjavík. Þá var hann í tvö ár og fór svo aftur heim í fimm mánuði en kom svo aftur og hefur unnið við fiskvinnslu síðan. Konan hans Pim flutti hingað árið 2004 en þau þekktust áður. Þau búa í eigin íbúð í Keflavík og eiga tvo syni sem eru ellefu og tólf ára gamlir.

„Ég er fjörutíu ára og ég kem frá borg sem heitir Petchabone í Tælandi en þar búa 300.000 íbúar. Ég hef unnið hjá Nýfiski undanfarin tvö ár og finnst gott að vinna hér. Það er líka stutt til Keflavíkur þar sem við búum en ég vann áður við fiskvinnslu í Grindavík,“ segir Duangdee.

„Ég er fjörutíu og fjögurra ára. Ég átti heima á bóndabæ í Tælandi rétt hjá borginni Nakhon Sawan. Þar eru foreldrar mínir með kindur, kýr og hænur. Þau eru einnig að rækta banana og bambus, allskonar grænmeti og ávexti. Ég kom til Íslands árið 2004 og byrjaði strax í Nýfiski og hef alltaf unnið hér. Ég tók frí þegar við vorum að eignast börn, þá var ég heima að passa strákana okkar sem eru báðir fæddir á Íslandi. Þeir eru í Myllubakkaskóla. Annar er að læra á gítar og hinn er að æfa taekwondo,“ segir Pim og brosir.

Tala bæði íslensku

Þeim finnst báðum mikilvægt að tala íslensku og hafa lagt sig fram um að læra málið.

„Ég fór á íslenskunámskeið síðast árið 2016, mér finnst mikilvægt að tala íslensku við Íslendinga,“ segir Duangdee.

„Ég er oft að læra íslensku á námskeiði hjá MSS. Mörg íslensk orð eru erfið en ég vil læra meira. Ein kona og margar konur til dæmis, eintala og fleirtala, málfræðin er erfið en gaman að læra málið. Strákarnir okkar tala góða íslensku. Þeir tala bæði tungumálin, tælensku og íslensku.

Strangar reglur í fiskvinnslu

Mjög strangar reglur gilda í dag í allri fiskvinnslu enda er verið að vinna með matvæli. Það er af sem áður var þegar margir Íslendingar unnu í fiski og fóru þá á stígvélunum sínum, jafnvel moldugum, inn og út úr frystihúsinu. Alls konar fólk var að fara inn í vinnslusalinn en þetta er allt stranglega bannað í dag. Blaðamaður fékk að finna fyrir þessu þegar taka átti ljósmynd af hjónunum í lok viðtalsins inni í vinnslusal. Blaðasnápur var snarlega rekin úr útiskóm áður en farið var inn á vinnslusvæðið. Beðin um að fara í vinnuslopp, í hrein stígvél og fékk hárnet á höfuðið.

Mikið hreinlæti

Starfsfólk í fiskvinnslu þarf að sótthreinsa hendur sínar áður en það fer inn í vinnslusal að vinna með fisk. Hárnet fer sem sagt á höfuð og hrein stígvél eru geymd inni við hlið vinnslusalarins,  allir fara í hreinan slopp og svuntu. Einnota hanskar eru einnig skilyrði. Ef starfsfólk þarf að fara á klósettið þá þarf það að fara aftur úr þessu öllu og skilja það eftir innan öryggissvæðisins. Hreinlæti er mjög mikilvægt. Starfsfólkið fer á námskeið þar sem það lærir allt um starfið, svo tekur almenn þjálfun við. Það þarf að nýta vel hráefnið og snyrta vel fiskinn. Æfingin skapar meistarann.

Hvað finnst þeim um starfið?

„Mér finnst gaman að vinna í fiski. Nú vinn ég líka í gæðaskoðun og er einnig stundum að snyrta, pakka og vigta fisk í pakkningar, aðallega ferskan þorsk, ýsu og karfa. Ég þarf að skoða vel fiskinn sem fer frá Nýfiski, má ekki vera bein eða neitt. Þegar ég vinn í gæðaskoðun þá fæ ég aukabónus, það er gott,“ segir Pim.

„Ég er að keyra lyftara og mér finnst starfið mitt mjög gott. Ég byrja hálftíma áður en fólk mætir á morgnana, stundum byrja ég klukkan hálf sex og stundum hálf sjö en við erum oftast búinn klukkan þrjú á daginn. Ég er ánægður með launin mín sem eru mun hærri en í Tælandi en þar er mikil fátækt og léleg laun. Við eigum okkar eigin íbúð í Keflavík og bíl,“ segir Duangdee.

„Það er mjög dýrt að lifa á Íslandi, að kaupa í matinn og svona. Launin mættu vera hærri miðað við hvað allt er dýrt,“ segir Pim.

Ísland er fallegt land

Það hljóta að vera viðbrigði að flytja til Íslands úr sól og hita Tælands. Hvað segja þau við því? „Mér finnst veðrið á veturna ekki gott en allt í lagi á sumrin. Mér finnst landið hérna mjög fallegt,“ segir hún en hann hefur aðra skoðun á veðrinu sem kemur Íslendingi á óvart:

„Mér finnst mjög gott að vera hér í svala loftinu, það er gott að hafa kalt stundum. Betra að anda hér en í Tælandi en þar er allt of heitt og mikill raki. Það er mun betra hér,“ segir hann.