Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gaman að vera túristi á Íslandi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 16. ágúst 2020 kl. 07:27

Gaman að vera túristi á Íslandi

Fanný Axelsdóttir, mannauðs- og samskiptastjóri Skólamatar fór víða um Ísland í sumar.

Sumarið hefur verð dásamlegt hjá mér og mínu fólki. Við höfum ferðast töluvert um landið okkar yndislega, fótgangandi, á bíl, bát og með þyrlu,“ segir Fanný Axelsdóttir, mannauðs- og samskiptastjóri Skólamatar í Reykjanesbæ, en með nýrri skólatíð eykst starfsemi fyrirtækisins eftir hlé í sumar.

Fanný fór um landið í sumar eins og margir aðrir og heillaðist af landinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég fór t.d. að Jökulsárlóni og hugleiddi upp við einn jökla-klumpinn sem var alveg mögnuð upplifun. Síðan var Ásbyrgi það sem kom mér mest á óvart, þvílík fegurð. Seljalandsfoss, Reynisfjara og Siglufjörður voru líka virkilega fallegir áfangastaðir. Eftirminnilegast var samt þyrluferðin sem við fórum með Reykjavík Helicopters yfir höfðuborgarsvæðið og yfir fjallagarðana í Árnessýslu og lentum á leynistað á Hengli, mæli eindregið með því. Ég verð svo að mæla með bæði VÖK böðunum á Egilstöðum og sjóböðunum á Húsavík. Ég fór einnig með börnin mín til Vestmannaeyja og Rib Safari bátsferðin var sjúllað ævintýri.

Það er virkilega gaman að vera túristi á Íslandi og ég ætla að gera svo miklu meira af því að ferðast um fallega landið okkar.

Fanný er einn stjórnenda Skólamatar ehf. og er mannauðs- og samskiptastjóri fyrirtækisins. Hún segir að COVID-19 hafi haft veruleg áhrif á reksturinn en nýlega gerði fyrirtækið samning við nokkra skóla á Seltjarnarnesi.

„Já, COVID-19 hafði veruleg áhrif á rekstur Skólamatar eins og flestra fyrirtækja. Skólastarf breyttist verulega, nemendur mættu sjaldnar í skólann ef eitthvað og færri nemendur gátu nýtt sér skólamatinn í hádeginu. Óvissan í byrjun var mikil og við urðum að hugsa hratt.  Breytingar á afgreiðslu og framreiðslu máltíða þýddi miklar breytingar fyrir framlínustarfsfólk og stjórnendur en með miklu samstarfi margra ólíkra aðila náðist að bjóða nemendum upp á mat alla kennsludaga. Við erum virkilega stolt af því hvað hægt var að bjóða upp á hollan og góðan mat þrátt fyrir miklar takmarkanir.  Já og nú hafa leik- og grunnskólar á Seltjarnarnesi bæst í hópinn en einnig hafa fleiri skólar bæst við í þeim sveitarfélögum sem við þjónustum nú þegar. Við höfum verið virkilega heppin með það að verkefnum fjölgar og framleiðslan hér á Iðavöllunum í Reykjanesbæ í takt við þau.“

– Nú er mikil óvissa í kringum COVID-19 þessa dagana, veistu hvernig málum verður háttað í fyrirtækinu ykkar nú þegar skólar eru að hefja starfsemi?

„Við erum við öllu búin og í raun mun betur undirbúin fyrir næstu atrennu heldur en við vorum í vor. Við leggjum auðvitað ríka áherslu á fara eftir fyrirmælum yfirvalda og verja starfsfólkið okkar á sama tíma og við bjóðum viðskiptavinum upp á hollan og ferskan mat sem við eldum frá grunni. Nú miðast okkar plön við að geta breytt skipulagi í mötuneytum í takt við stöðuna í COVID-19.  Við þurfum að læra að lifa með þessu breytta landslagi og öll þurfum við jú að borða,“ sagði Fanný.



Fanný og börn hennar, Þórunn Fríða og Matthías Bjarndal, hafa notið Íslands í sumar í þyrluflugi og heimsókn á hina ýmsu ferðamananstaði, eins og sjá má á myndunum.