Gallharðir Grindjánar á skilti við Grindavíkurvöll
„Ég vona að þetta verði að ákveðnu trendi, að fleiri gallharðir stuðningsmenn Grindavíkurliðsins fylgi á eftir,“ segir Thorberg Einarsson, sjómaður, en hann lét gamlan draum rætast og setti mynd af sér á auglýsingaskilti við Grindavíkurvöll – og styrkti knattspyrnudeild UMFG í leiðinni. Tobbi er mikill húmoristi og bauð Mikael Tamar Elíassyni, bátsfélaga sínum, að vera með sér á skiltinu.
Tobbi eins og hann er jafnan kallaður, já eða Tobbi rokklingur, er fæddur og uppalinn í Grindavík. „Ég er fæddur árið 1980, ólst upp í Grindavík og bjó þar upp að tvítugsaldri, flutti þá í Reykjavík en kynntist svo konunni minni sem er frá Vopnafirði og flutti með henni þangað árið 2003. Við höfum komið fjórum börnum á legg og unum okkur vel fyrir norðan. Ég er sjómaður, var að róa hjá Einhamri í Grindavík frá 2004 til 2010, réri svo hjá manni heima á Vopnafirði til ársins 2020 en sneri þá aftur til Stebba og Söndru hjá Einhamri, er á Vésteini GK 088 og er mjög sáttur þar. Þar sem ég sneri aftur til Grindavíkur fór ég aftur að fylgjast betur með íþróttunum en sem gutti var ég aldrei líklegur að ná frama í íþróttum. Hef samt alltaf fylgst með, mæti á völlinn hjá Einherja þegar ég er heima á Vopnafirði og að sjálfsögðu ef ég er í landi og við í Grindavík, þá fer ég í gulu treyjuna mína.“
Ekkert erindi inn á völlinn, betur geymdur á skilti við völlinn
Tobbi lét gamlan draum rætast. „Ég fékk þessa hugmynd fyrir ansi mörgum árum síðan, að setja mynd á mér á skilti við völlinn og styðja fjárhagslega við félagið mitt í leiðinni. Mér finnst þetta fyndið og hafði verið að velta þessu fyrir mér í dágóðan tíma. Ég þekki núverandi formann knattspyrnudeildarinnar, Hauk Einarsson, en hann var líka að róa hjá Einhamri. Haukur var búinn að vera í stjórn lengi og við grínuðumst oft með þetta, svo ákvað ég bara að láta verða að þessu og sagði Hauki að það væri komið að þessu! Fyndið að ég fékk formann hinnar stóru deildar UMFG, körfuknattleiksdeildarinnar, hann Ingiberg æskuvin minn en hann er frábær ljósmyndari, til að stilla þessu upp og taka myndina. Ingibergur kom með körfuboltabúning en á svipuðum tíma bauð ég bátsfélaga mínum, Mikael Tamar Elíassyni, að vera með á myndinni. Tamar var ekki lengi að samþykkja það og skín húmor hans vel í gegn á orðunum sem eru á spjaldinu. Tamar fékk fótboltabúning, ég fór í körfuboltabúninginn en hugmynd mín er að skiltið fari svo inn í íþróttahúsið í vetur,“ sagði Tobbi.
Rokklingarnir
Tobbi gerði garðinn frægan, ásamt fleiri barnastjörnum, á árunum 1989 til 1991. „Þetta var fyndið, ég var níu ára gamall þegar mamma og pabbi fóru með Sigurrós systur í prufu í Djassballetskóla Báru. Ég var bara að kubba með öðrum börnum á meðan ég beið en pabbi heitinn, skráði mig líka. Allt í einu var nafnið mitt kallað upp, ég vissi ekkert og boraði bara í nefið á mér. Ég söng ekki einu sinni í prufunni, sagði bara brandara og þegar við komum heim um kvöldið var hringt og tilkynnt að ég væri kominn áfram í frekari prufur. Ég komst síðan alla leið í lokahópinn og lýg því ekki, þegar upptökur fóru fram, myndatökur og hitt og þetta í kringum útgáfu svona plötu, vissi ég ekki neitt hvað væri í gangi, hafði ekki hugmynd! Fyrsta plata Rokklinganna kom út fyrir jólin, sló algjörlega í gegn og ég neita því ekki, það var skrýtið að mæta í skólann eftir jólafríið en svo upphófst ótrúlegur tími sem var sveipaður sannkölluðum rokkstjörnublæ! Við vorum flestar helgar að túra um landið, mamma og pabbi þurftu að skipta um símanúmer því áreitið var orðið svo mikið. Þetta tímabil stóð yfir í þrjú ár, við gáfum út þrjár plötur, tvær þeirra náðu platínusölu sem var auðvitað frábær árangur. Lögin voru öll meira og minna í syrpum, ég söng lög eins og Danska lagið, Rabbabara Rúna en minn helsti smellur var líklega Jybbí jei, ég er ekki frá því athygli frá stelpunum hafi náð hámarki þá,“ sagði Tobbi að lokum.