Gáfu ritþjálfa í minningu Matthíasar
Árgangur 1961 frá Sandgerði hélt upp á 30 ára fermingarafmæli sitt þann 7. maí síðastliðinn. Séra Guðmundur Guðmundsson, heitinn, þáverandi prestur að Útskálum í Garði fermdi hópinn. Árgangur 1961 lét ekki sitt eftir liggja og gáfu Grunnskólanum í Sandgerði veglega gjöf til minningar um Matthías Hannesson sem drukknaði fyrir nokkrum árum. Matthías var fæddur árið 1961 en fermingarsystkini hans gáfu Grunnskólanum í Sandgerði ritþjálfa í hans nafni.
Hópurinn fór um víðan völl og m.a. skoðuðu þau nýja og endurbætta samkomuhúsið í Sandgerði og kertagerðina Jöklaljós. Einnig var farið í „Gamla Sandgerði“ þar sem fermingarafmælisbörnin gæddu sér á snúði og kókómjólk eins og þá var siður og er reyndar enn. Um kvöldið voru svo dýrindis kræsingar boðnar fram á Vitanum af Stefáni, verti Vitans. Einhver hluti af hópnum skellti sér svo á Bergásballið í Stapa til að rifja þar enn fremur upp gömlu dagana og dansana.