Gáfu mér nýja sýn á lífið
Freydís Kneif Kolbeinsdóttir, grunnskólakennari í Gerðaskóla, er bókaormur vikunnar hjá Víkurfréttum.
– Hvaða bók ertu að lesa núna?
Í augnablikinu er ég ekki að lesa neina bók og ekki með augastað á neinni.
– Hver er uppáhaldsbókin?
Það er bókin Mamma í uppsveiflu eftir Ármann Kr. Einarsson, barnabók sem ég hef marglesið. Það er eitthvað við þessa bók sem náði mér strax sem barn. Hún fjallar um Geira sem er að setja upp leikrit með bekkjarfélögum sínum en móðir hans er með geðhvarfasýki og það hefur auðvitað töluverð áhrif á líf hans. Barna- og unglingabækur hafa alltaf heillað mig og ég les mikið af bókum ætluðum fyrir þennan hóp.
– Hver er uppáhaldshöfundurinn?
Á engan uppáhalds en það eru nú nokkrir höfundar sem ég les allt eftir, t.d. Arnaldur Indriðason, James Patterson, og J. K. Rawlings.
– Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Þetta hefur nú mikið breyst með árunum. Ég var mikill bókaormur sem barn og las allt sem ég komst yfir. Eftir að ég varð fullorðin las ég lengi vel bara spennusögur en hef upp á síðkastið verið að lesa ástarsögur, bækur sem teljast nú varla til heimsbókmenntanna! Þær eru góð hvíld frá hversdagsleikanum, skilja svo sem ekki mikið eftir sig en þær láta mann gleyma stund og stað og það er oft fínt að geta leyft sér það. Heimsbókmenntirnar krefjast þess að maður sé í núinu og pæli í hlutum, ástarsögur eru sjaldnast þannig og því kærkomin hvíld frá amstri dagsins. Heimsbókmenntirnar detta svo inn svona endrum og sinnum.
– Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Árið 1990, þegar ég var sautján ára, fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjana. Þar las ég þó nokkrar bækur sem höfðu mjög mikil áhrif á mig, ég var á þessum tíma búin að lesa mikið miðað við flesta jafnaldra en þarna kynntist ég bókmenntum sem ég hafði ekki lesið hér heima. Þetta voru bækur sem vöktu með mér tilfinningar, bæði góðar og slæmar, gáfu mér nýja sýn á lífið en umfram allt vöktu mig til umhugsunar og fengu mig til að sjá hversu verndað umhverfi ég hafði búið við. Þetta voru bækur eins og Of Mice and Men eftir John Steinback, leikritin The Crucible og All My Sons, bæði eftir Arthur Miller. Ég las líka leikritið The Glass Menagerie eftir Tennessee Williams. Get eiginlega ekki valið hvert þessara verka hafði mestu áhrifin en þau eru mér öll mjög eftirminnileg og ég hef bæði lesið þau nokkrum sinnum síðan og séð leikritin eða bíómyndirnar sem hafa verið gerðar eftir þessum bókum.
– Hvaða bók ættu allir að lesa?
Undur eftir R. J. Palacio, áhrifarík lesning sem kennir manni að lífið er ekki bara svart og hvítt. Þetta er bók sem ég las fyrir tilviljun. Ég hefði sjálfsagt aldrei lesið hana ef ég hefði ekki séð hana á borði hjá nemenda og tók hana upp og opnaði. Ég heillaðist strax á fyrstu blaðsíðunni og náði mér í eintak til að lesa heima. Er nú með nokkur eintök af þessari bók í kennslustofunni og hvet nemendur til að lesa hana.
– Hvar finnst þér best að lesa?
Þegar ég var barn las ég alls staðar. Var oftast með bók í hendi og var til dæmis mjög oft vinsamlegast beðin um leggja hana frá mér við matarborðið og einbeita mér að matnum! Ég átti mér líka uppáhaldsstað í bókasafninu í Gerðubergi en ég ólst upp þar steinsnar frá. Ég eyddi ómældum tíma í Gerðubergi enda uppáhaldstaðurinn minn sem barn og unglingur. Nú orðið les ég oftast sitjandi í rúminu, kem mér vel fyrir með tvo kodda við bakið og sængina breidda vel yfir mig.
– Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Dag í senn eftir Karl Sigurbjörnsson – frábær bók sem gefur manni gott veganesti út í dag hvern.
Fýkur yfir hæðir eftir Emily Brontë.
Jane Eyre eftir Charlotte Brontë.
Elías-bækurnar eftir Auði Haralds – Skemmtilegar og fyndnar barnabækur.
Harry Potter-bækurnar eftir J. K. Rawlings – Las þær fyrir stuttu síðan, þær eru skemmtilegri en ég átti von á – hefði átt að vera löngu búin að lesa þær.
Dagbók Bridget Jones eftir Helen Fielding – fyndin, ógleymanlegur persónuleiki Bridget gerir þessa bók frábæra.
Laxdæla og Brennu-Njáls saga – Þær verða betri eftir því sem ég eldist ... skildi ekkert í þeim þegar ég las þær í skóla sem unglingur.
Að láta lífið rætast eftir Hlín Agnarsdóttur.
Fýlupokarnir eftir Valdísi Óskarsdóttur, enn ein barnabókin sem er svo eftirminnileg.
– Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Elías eftir Auði Haralds – Sú dásemdarbók kemur mér alltaf til að hlæja, léttir lundina og það væri nú bráðnauðsynlegt ef ég væri allt í einu alein á eyðieyju. Auður Haralds hefur náð að gæða drenginn Elías svo miklu lífi og lýsingarnar eru svo skemmtilega myndrænar að það er ekki annað hægt en að sjá öll hans ævintýri fyrir sér og springa bara úr hlátri. Þessa bók hef ég margoft lesið, bæði bara fyrir mig sjálfa og einnig nemendur í gegnum tíðina.