Gáfu Listasafni Reykjanesbæjar þrjú listaverk
Hjónin Svava Kristín Valfells og Sveinn Valfells komu færandi hendi í Listasafn Reykjanesbæjar síðasta föstudag og gáfu safninu þrjú listaverk sem tengjast Reykjanesbæ. Eitt þessara verka er nú til sýnis á sumarsýningu safnsins. Verkið heitir Mannfélagið, „At the Pool“ og er eftir Ásgeir Bjarnþórsson. Verkið er önnur útgáfa af mynd sem send var á Ólympíusýninguna í London árið 1948.
Sveinn og Svava Kristín gáfu safninu einnig tvær aðrar myndir sem tengjast Reykjanesbæ. Önnur er mynd eftir Magnús Á. Árnason frá Narfakoti í Njarðvík og hin er mynd eftir Jón Steingrímsson, stýrimann, sem bjó síðari ár sín í Keflavík en hann var faðir Svövu. Báðar þessar myndir voru í eigu Þórgunnar Ársælsdóttur Árnasonar frá Narfakoti en hún var fyrri kona Jóns Steingrímssonar og móðir Svövu.
Á vef Reykjanesbæjar kemur fram að Listasafn Reykjanesbæjar eigi nú um 700 listaverk sem flest eru í nýrri kantinum og því hafi verið mikill fengur af þessari viðbót af eldri verkum í safnkostinn. Forstöðumaður safnsins, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, og formaður menningarráðs, Eva Björk Sveinsdóttir, tóku á móti gjöfinni og þökkuðu höfðingsskapinn.