Gáfu fjölskyldu fjárstyrk á erfiðum tímum
- Stefán Sölvi, 9 mánaða, er haldinn erfiðum veikindum.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá Brunavörnum Suðurnesja afhentu í dag Hirti Fjeldsted, föður 9 mánaða drengs, Stefáns Sölva Fjeldsted, fjárstyrk að upphæð 250.000 krónur. Stefán Sölvi er haldinn erfiðum veikindum sem ekki er búið að greina að fullnustu. Hann varð 9 mánaða 30. janúar síðastliðinn, vegur aðeins 6 kg og er afar veikburða. Hann hefur verið á innlögn á Landspítalanum í nokkurn tíma og hefur átt erfitt með að nærast og halda höfði. Greindur hefur verið galli í 18. litningi en það er ekki talið tengjast þeim veikindum sem hann glímir við í dag.
Móðir Stefáns Sölva er Hulda Ósk Jónsdóttir og hann á tvö systkini, Amelíu, 10 ára, og Hjört Karl, sem er 5 ára. Þau búa í Sandgerði.
Fjárhæðin safnaðist meðal annars með sölu á dagatölum og brunavarnatækjum í desember. Með styrkveitingunni vilja slökkviliðsmennirnir létta aðeins undir hjá fjölskyldunni á erfiðum tímum. Víkurfréttir óska fjölskyldunni alls hins besta.
VF/Olga Björt