Gáfu eldri borgurum stuðtæki
Markmið flestra kvenfélaga á Íslandi er að vinna að líknar- og framfaramálum, hvert í sinni heimabyggð. Á Suðurnesjum eru nú starfandi fimm kvenfélög sem öll hafa lagt sitt af mörkum í þágu samfélagsins. Kvenfélagskonur um allt land eru sammála um, að það sé gaman að vera í kvenfélagi. Þar fá félagskonur tækifæri til að vinna að góðum málefnum, læra hver af annarri og vaxa í góðum félagsskap.
Kvenfélagið Gefn í Garði hefur unnið ötullega að sínu markmiði, nú eins og endranær. Á nýliðnu ári gaf félagið gjafir og veitti styrki til einstaklinga, stofnanna og fyrirtækja og lagði þannig sitt af mörkum til líknar og framfara á sínum heimaslóðum.
Þann 16. desember sl. færði kvenfélagið Gefn Auðarstofu, hjartastuðtæki að gjöf. Í Auðarstofu sem er við Gerðaveg 1 í Garði, er fjölbreytt og líflegt félagsstarf fyrir Garðbúa sem eru 60 ára og eldri, svo og öryrkja og atvinnuleitendur. Systurnar Ingibjörg og Sigurborg Sólmundardætur veita Auðarstofu forstöðu.
Herborg Hjálmarsdóttir formaður afhenti gjöfina fyrir hönd kvenfélagsins með ósk um að ekki kæmi til þess að nota þyrfti tækið. Hjartastuðtæki er þó nauðsynlegur öryggisbúnaður og gott til þess að vita að slíkt tæki sé nú staðsett í Auðarstofu.
Karitas Halldórsdóttir frá Vörum í Garði, tók við gjöfinni fyrir hönd Auðarstofu en hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfinu þar undanfarin ár. Karitas er auk þess heiðursfélagi í kvenfélaginu Gefn svo hún er verðugur fulltrúi bæði gefenda og þiggjenda.
Í Auðarstofu var haldinn jólafagnaður þennan sama dag þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði og meðlæti, tónlist, söng og sögustund og góða samveru. Það er gaman að geta þess, að góður hópur Gefnarkvenna er einnig virkur í félagsstarfi Auðarstofu og láta þær ekki sitt eftir liggja þegar kemur að hvers konar handverksgerð og öðru því sem þar fer fram. Margar þeirra voru viðstaddar þegar gjöfin var afhent.
Þann 28. desember s.l. bauð kvenfélagið Gefn Garðbúum nær og fjær á árlega jólatrésskemmtun félagsins. Aðgangur var ókeypis eins og undanfarin ár og það voru um 200 gestir sem þáðu boð kvenfélagsins. Það var einkar ánægjulegt að sjá börn og foreldra, afa og ömmur skemmta sér saman á jólaballinu.
Kvenfélagið sendir öllum þeim sem veittu dygga aðstoð við að gera jólaballið okkar vel úr garði, kærar kveðjur og bestu þakkir fyrir hjálpina.
Með ósk um farsæld á nýju ári
og þökk fyrir veittan stuðning á liðnum árum.
Kvenfélagið Gefn í Garði.