Gáfu eina og hálfa milljón til Krabbameinsfélagsins
Það er skammt stórra gjafa á milli hjá Krabbameinsfélagi Suðurnesja vegna fjársöfnununar sem félagið stendur fyrir til kaupa á krabbameinsleitartækjum.
Eins og við greindum frá í síðustu viku komu fulltrúar Kaupfélags Suðurnesja og Samkaupa færandi hendi með eina milljón króna til söfnunarinnar.
Í morgun komu svo fulltrúar Kvenfélagsins í Njarðvík með eina og hálfa milljón til söfnunarinnar og eru fulltrúar Krabbameinsfélagsins að vonum afar þakklátir og ánægðir með þessar rausnarlegu gjafir.
Féð sem kvenfélagskonurnar gáfu í morgun er úr sérstökum styrktarsjóði félagsins sem notaður er til ýmissa líknarmála. Um 30 konur eru virkar í félaginu um þessar mundir og segja fulltrúar þess að þær mættu gjarnan vera fleiri. Það að starfa í kvenfélagi sé gefandi og skemmtilegt og henti konum á öllum aldri.
Krabbameinsfélagið hóf fyrir nokkru fjármögnun að berkju-, maga – og ristilspeglunartæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var leitað til fyrirtækja og félagasamtaka eftir stuðningi við verkefnið en kostnaður við það er um 10 milljónir króna. Tækið hefur nú þegar verið sett upp og verður afhent formlega á fimmtudaginn.
Það er mjög fjölþætt og nýtist bæði við forvarnir og greiningu krabbameins sem og við meðhöndlun annarra kvilla í meltingar og öndunarvegi. Með tækinu er sú þjónusta, sem hingað til hefur þurft að sækja til Reykjavíkur, þar með komin í heimabyggð.
Söfnunarreikningur Krabbameinsfélags Suðurnesja er 1109-05-404790, kt. 431095-2469.
Mynd/elg: Frá afhendingunni í morgun talið frá v.: Anna María Einarsdóttir og Ómar Steidórsson, fulltrúar Krabbameinsfélags Suðurnesja, Elín Guðjóndóttir, formaður Kvenfélagsins í Njarðvík, María Ögmundsdóttir, ritari og Valgerður Jónsdótir, gjaldkeri.