Gáfu 60 heklaða smekki til HSS
Sandgerðingarnir Eiríkur Bragason og Lilja Hafsteinsdóttir afhentu fæðingardeild HSS í Reykjanesbæ góða gjöf um síðustu helgi. Lilja hefur ekki setið auðum höndum sl. tvo til þrjá mánuði, heldur setið við í frístundum og heklað sextíu ungbarnasmekki, með það að markmiði að færa fæðingardeildinni afraksturinn af vinnunni. Eiríkur tók síðan við keflinu og fullkomnaði verkið með því að hanna og smíða stand undir alla dýrðina. Valgerður B. Ólafsdóttir, ljósmóðir, var að vonum bæði þakklát og glöð er hún tók við gjöfinni f.h. fæðingardeildarinnar.Lilja og Eiríkur óskuðu eftir því að nýbakaðir foreldrar fengju sjálfir að velja sér eintak af standinum, því smekkur manna er misjafn. Frá þessu er greint á 245.is.