Gaf sér nýjan lífsstíl á 30 ára afmælinu
- Varð svo maraþonhlaupari
Una Sigurðardóttir ákvað að gefa sjálfri sér nýjan lífsstíl að gjöf þegar hún varð þrítug fyrir 14 árum síðan. Sú gjöf hefur heldur betur borið ávöxt því síðan þá hefur Una hlaupið fimm heil maraþon og fjölmörg hálf maraþon. „Ég reykti og drakk kók og hafði aldrei hlaupið né stundað íþróttir. Þegar ég sá konur í Kvennahlaupinu út um eldhúsgluggann
var ég í hláturskasti yfir því að fólk færi í alvörunni út að hlaupa. Á þeim tíma hefði enginn trúað því að ég ætti eftir að verða hlaupari og þá síst af öllu ég sjálf. Núna finnst mér frábært að vera 44 ára og eiga áhugamál. Ég er ótrúlega heppin að hlaupin skyldu detta inn í mitt líf,“ segir hún. Eins og gengur og gerist með fólk sem hættir að reykja fann Una fyrir pirringi og vanlíðan fyrstu vikurnar eftir að hún hætti. Pirringurinn varð til þess að hún fór út að ganga til að líða betur. Með tímanum fór hún svo að hlaupa við fót, lengri og lengri hluta gönguferðarinnar. Göngutúrarnir fóru fljótlega að þróast út í skokk og stuttu síðar fór Una að skokka þrisvar sinnum í viku. Þremur árum síðar tók hún svo þátt í Reykjavíkurmaraþoni í fyrsta sinn og hljóp þá 10 kílómetra.
Í upphafi skellti Una sér út að hlaupa stuttan hring á meðan kartöflurnar voru að soðna en í dag fer töluvert meiri tími í æfingarnar eða allt frá fimm til átta klukkustundum á viku ef maraþon er í undirbúningi. Til að byrja með fannst Unu erfitt að hlaupa en ákvað samt að gefast ekki upp. „Þegar ég var að byrja að hlaupa árið 2001 þá sá maður ekki oft fólk úti að hlaupa í Reykjanesbæ. Það voru nokkrar konur sem ég hafði séð á hlaupum eins og Margrét Sanders og Una Steins.
Hluti af jafnréttisbaráttunni
Una er fjögurra barna móðir og á von á fyrsta barnabarninu á næstunni. Þegar hún byrjaði að hlaupa og börnin voru yngri reyndist henni oft snúið að sameina móðurhlutverkið, fulla vinnu og hlaupin. „Það er mín tilfinning að almennt fari töluvert púður í það hjá útivinnandi mæðrum að ná að stunda áhugamál sín. Það er hluti af jafnréttisbaráttunni og láta húsverkin bara lönd og leið og fara út að hlaupa eða stunda önnur áhugamál. Ég er til dæmis löngu búin að segja upp því starfi að para alltaf saman sokkana á heimilinu, versla inn og elda. Við skiptumst á þar við hjónin en það gengur reyndar svolítið illa að fá hann í að para sokkana. Auðvitað lætur eitthvað undan en það verður bara að hafa það. Ég var alveg ákveðin í að sleppa þessu áhugamáli ekki. Ég varð mamma 19 ára og hefur því meiri partur tíma míns í gegnum árin farið í að hugsa um börn og heimili. En í dag er þetta orðið mikið minna mál þegar börnin eru orðin stór,“ segir Una. Hlaupin eru nú orðin hluti af lífi fjölskyldunnar og er eiginmaðurinn dyggasti stuðningsmaður Unu. Þessa dagana fer yngsti sonur hennar, 9 ára, stundum með út að hlaupa og hún hleypur mikið með dóttir sinni.
Síðasta vor hljóp Una hálft maraþon á Kínamúr með dóttur sinni, Svölu Dís Sigurðardóttur.
Maraþon minnir á meðgöngu
Eftir að hafa hlaupið 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni byrjaði Una að hlaupa enn meira og tók svo þátt í heilu maraþoni í Kaupmannahöfn árið 2009. Hún hafði rekist á æskuvin sinn, Guðjón Vilhelm, í hálfu maraþoni og þau ákváðu saman að skella sér í heilt maraþon. Una segir fyrsta hlaupið hafa verið nokkuð erfitt enda liðu þrjú ár þar til hún hljóp næst heilt maraþon. „Fyrsta hlaupið gekk svolítið nærri mér. Ég hélt jafnvel að ég myndi ekki lifa það af. Það er misjafnt hvernig fólk kemst frá svo löngum hlaupum. Margir láta sér bara nægja að fara í eitt maraþon yfir ævina.“ Aðspurð hvort maraþonhlaup verði léttari með reynslunni segir hún svo ekki vera. „Þetta er alltaf jafn erfitt í lokin finnst mér. Síðustu tíu kílómetrana spyr maður sig aftur og aftur hvað maður sé nú búinn að koma sér út í. Manni er illt víða um líkamann og alveg að drepast. Svo um leið og ég hleyp yfir marklínuna er það gleymt og ég verð ótrúlega stolt af mér og byrja að skipuleggja næsta hlaup. Þetta er persónulegur sigur sem maður á með sjálfum sér og enginn getur tekið í burtu. Mér finnst hlaupin hafa gert mig að sterkari persónu og hjálpa mér að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Þar þarf ég að beita mig aga, anda djúpt og klára það sem ég byrja á. Þetta gerir manni gott.“
Una segir maraþonhlaup að mörgu leiti minna á meðgöngu og fæðingu. „Þetta er eitthvað sem maður ákveður og undirbýr sig svo í nokkra mánuði. Svo verður maður spenntur þegar stóri dagurinn nálgast en líka pínu kvíðinn en hlakkar mikið til að klára þetta. Maður veit að þetta verður vont en líka að maður mun sennilega ná sér að fullu. Það að eignast barn er lífið sjálft en hlaupin bara áhugamál en samt eru þessar tilfinningar svo líkar. Svo þegar ég hef verið búin að fá börnin mín í fangið hefur mig farið að langa í fleiri, alveg eins og ég hugsa um næsta maraþon þegar ég kem í mark.“
Sameinar hlaup og ferðalög
Una er mannauðsstjóri hjá Icelandair Technical Services, ITS, á Keflavíkurflugvelli og kveðst heppin að geta sameinað ferðalög og hlaup. Fyrir utan hlaupið í Kaupmannahöfn hefur hún hlaupið maraþon í París, New York, Reykjavík og nú síðast í Chicago. Í vor fór hún ásamt dóttir sinni hálft maraþon á Kínamúrnum. Stóri draumurinn hjá Unu er svo að taka þátt í Boston maraþoninu sem er elsta maraþon heims. Ná þarf ákveðnum lágmörkum til að taka þátt í því hlaupi. Stefnan er að ná lágmarkinu 2016 og taka þátt í Boston árið 2017.
Parísarmaraþonið er eitt af þeim eftirminnilegustu sem Una hefur hlaupið. Í því hlaupi hljóp Gaui vinur hennar aftur með henni og einnig maðurinn hennar sem fór þá sitt fyrsta og eina maraþon. Í París er hlaupið meðfram Signu, fram hjá Notre Dame, Effell-turninum og fleiri sögufrægum stöðum. Reykjavíkurmaraþon er líka í miklu uppáhaldi. „Þar er maður á heimavelli, kannast við umhverfið og hittir marga sem maður þekkir. Í því hlaupi getur líka öll fjölskyldan komið og horft á. Þegar hlauparar koma yfir marklínuna í Reykjavíkurmaraþoni er lagt mikið upp úr því að kalla upp nafn hvers og eins. Það er alveg frábær tilfinning á lokasprettinum.“
Una með Hafþóri syni sínum eftir að hann hafði lokið sinni fyrstu þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni. Hann er duglegur að hlaupa með mömmu sinni.
Tekur hlaupin fram yfir golf
Eiginmaður Unu, Sigurður Haraldsson, er golfari en hljóp með henni, eins og áður sagði, í París. Þegar þau höfðu verið saman í 25 ár ákváðu þau að fagna tímamótunum með því að hlaupa saman maraþon í borg ástarinnar. „Samningurinn á milli okkar var þannig að hann færi í maraþon en hann hafði ekkert verið að hlaupa og ég myndi svo gefa golfíþróttinni tækifæri. Árangurinn hefur nú ekki verið mikill ennþá því ég tek hlaupin alltaf fram yfir á sumrin en ég er að reyna að vera líka í golfi.“
Una æfir með þríþrautarhóp 3N þrisvar sinnum í viku en fer líka ein á æfingar eða með börnum sínum og vinkonum. Þegar líða fer að maraþoni verða vegalengdirnar lengri og þá hleypur Una yfirleitt tvisvar sinnum á undirbúningstímabilinu uppáhalds langhlaupshringinn sinn, úr Njarðvík til Sandgerðis, þaðan út í Hafnir og svo heim í Njarðvík, um 30 til 34 kílómetra.
Ekki er hægt að ljúka viðtalinu án þess að biðja Unu um ráðleggingar til fólks sem er í sömu sporum og hún var fyrir 14 árum en langar að gera hlaupin að lífsstíl. „Það er bara að leggja af stað. Reima á sig skóna og fara út. Þegar maður er kominn af stað er þetta ekki neitt mál. Nú eru í boði alls konar námskeið og hlaupahópar og öpp í símanum til að hvetja sig áfram á æfingum og halda utan um þær. Fólk þarf ekkert endilega að fara í maraþon, maður getur alltaf skellt sér út, þó ekki sé nema í hálftíma,“ segir Una og óskar sem flestum þeirra lífsgæða að geta hlaupið. „Það er ótrúlega magnað að vera úti í náttúrunni með andardrættinum og fótstiginu. Hlaupin eru það dýrmætasta sem ég á, fyrir utan fólkið mitt.”
Una með dýrunum sínum. Hundurinn hleypur oft með henni.
„Það er ótrúlega magnað að vera úti í náttúrunni með andardrættinum og fótstiginu,“ segir Una.