Gaf grunnskólum Reykjanesbæjar lokaverkefni sitt
Aðalheiður Hanna Björnsdóttir færði nýlega öllum sex grunnskólum Reykjanesbæjar eintak af spilinu „Frá toppi til táar“. Aðalheiður fékk styrk úr Skólaþróunarsjóði Manngildissjóðs árið 2013 til að ljúka við gerð spilsins, en það var lokaverkefni hennar til B.Ed.-prófs. Þetta kemur fram á vefsíðu Reykjanesbæjar.
Spilið er byggt á kennslufræðilegum áherslum og gildum námsefnis í líffræði á miðstigi og áherslum í Aðalnámskrá grunnskóla/Greinasvið 2013. Spilinu er ætlað að vekja áhuga og auka þekkingu á námsefninu, ásamt því að stuðla að fjölbreyttum kennsluaðferðum í náttúrufræði.
Aðalheiður, sem hefur starfað við grunnskóla í Reykjanesbæ, hefur nú selt útgáfuréttinn til Námsgagnastofnunar. Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, tók við gjöfinni höfðinglegu.