Gaf 60 málverk til líknarmála
Lionessuklúbbur Keflavíkur stendur fyrir málverkasýningu á Ljósanótt þar sem til sölu verða verk eftir Elínrósu B. Eyjólfsdóttur en andvirði sölunnar mun renna í líknarsjóð klúbbsins. Elínrós gaf Lionessum 60 málverk í þessu skyni sem hún hefur málað síðastliðin þrjú ár. Elínrósu þekkja margir en hún er uppalin í Keflavík og hefur starfað að myndlist í 30 ár. Hún rekur vinnustofu að Hvalvík 2 í Reykjanesbæ.
Lionessur í Keflavík hafa farið ýmsar leiðir við fjáröflun í líknarsjóðinn en sýning eins og þessi hefur ekki verið haldin áður í þessum tilgangi. Fjáröflunin hefur m.a. verið í formi sælgætissölu fyrir jólin sem fengið hefur góðar undirtektir. Þá hefur árleg Góugleði klúbbsins notið mikilla vinsælda en fyrstu árin sáu félagskonur um allt sem sneri að hráefnisöflun, eldamennsku og skemmtiatriðum svo fátt eitt sé nefnt. Á Góugleðinni hefur einnig farið fram listmunahappdrætti og afraksturinn runnið í líknarsjóðinn. Listafólk á svæðinu hefur stutt happdrættið dyggilega í gegnum árin.
Lionessuklúbbur Keflavíkur var stofnaður fyrir 28 árum og eru félagskonur í dag fjörutíu og ein. Á þessum árum sem klúbburinn hefur starfað hefur ríflega 20 milljónum verið ráðstafað úr verkefna- og líknarsjóði hans. Margvísleg verkefni hafa verið studd með þessu fé, s.s. sjúkrahúsið, aldraðir, Rauði krossinn, skátastarf Heiðabúa, Þroskahjálp á Suðurnesjum og Velferðarsjóður Suðurnesja. Þá hafa einstaklingar verið studdir vegna veikinda. Mög verkefni hafa einnig verið unnin í samstarfi við Lionsklúbb Keflavíkur og aðra klúbba af svipuðum meiði. Þær Guðný Gunnarsdóttir, fyrsti formaður klúbbsins, og Drífa Maríusdóttir, núverandi formaður, vildu í samtali við VF koma á framfæri þakklæti til þeirra aðila sem koma að málverkasýningunni á Ljósanótt sem og öllum velunnurum klúbbsins sem stutt hafa fjáöflun hans í gegnum árin.
Sýningin verður opin fimmtudaginn 2. sept. kl. 17-22, á föstudeginum frá kl. 13-22, laugardeginum frá kl. 12-18 og sunudeginum frá 13-17.
Efsta mynd: Elínrós B. Eyjólfsdóttir, mynlistarkona, og Drífa Maríusdóttir, formaður Lionessuklúbbs Keflavíkur.
Sælgætiskransar klúbbsins hafa selst vel fyrir jólin en innkoman af sölunni hefur runnið í líknarsjóðinn.
Tignarlegar hattakonur á fundi klúbbsins.