Gæti ekki fengið betri kennara
Rúnar Pierre, matreiðslunemi ársins 2013.
„Hér er besta aðstaðan og kennslan, með landsliðsstjóra og fyrirliða kokkalandsliðsins, ásamt matreiðslumanni ársins. Ég gæti ekki fengið betri kennara,“ segir Rúnar Pierre Heriveanx, sem byrjaði fyrir ári sem matreiðslunemi í Lava. Hann segist áður hafa haft smávegis starfsreynslu í eldhúsi en gerði sér svo lítið fyrir og sigraði nemakeppni Matreiðslumanns ársins í september í fyrra. „Fyrir keppnina kunni ég ekki mikið en svo tóku Viktor og Ingi mig í gegn í svona vikutíma og veittu mér frábæra leiðsögn og þjálfun. Bláa Lónið hjálpaði mér einnig mikið með hráefni og aðstöðu. Viktor og Ingi hvöttu mig til að taka þátt og til að byrja með var ég ekkert rosalega spenntur. En þeir héldu áfram að hvetja mig og segja að ég yrði Íslandsmeistari.“ Og það gekk eftir.
Fékk 10 í einkunn
Rúnar segir undirbúningsvikuna hafa verið rosalega. Hann hafi fengið að gista í Lækningalindinni því hann undirbjó sig fram á nótt og varð að byrja æfingar snemma næsta dag. „Ég var mjög stressaður. Viktor er frekar strangur þjálfari og þjálfaði mig í þeim fjölmörgu atriðum sem snerta keppnina alla vikuna. Við tókum þetta í raun skrefinu lengra en í nemakeppninni sjálfri og ég fékk einkunnina 10, en hefði í raun ekkert átt að fá hana því það gera allir einhver mistök í svona keppni,“ segir Rúnar hæverskur og hann hafi verið hissa á að hafa unnið. „Ég brosti ekki einu sinni og varð hálf vandræðalegur þegar ég var spurður að því hvort ég væri ekki ánægður. En ég var feginn þegar keppnin var búin,“ segir hann og bætir aðspurður við að hann ætlar að taka þátt í keppninni um Matreiðslumann ársins eftir að hann útskrifast. „Já þeir hafa líka verið að þrýsta á mig með það,“ segir þessi ungi metnaðarfulli matreiðslunemi.