Gæsahúð á Grease
„Maður fær bara gæsahúð, vá, þvílíkur kraftur og stuð,“ sagði betri helmingur minn eftir fyrstu mínúturnar á söngleiknum Grease sem Leikfélag Keflavíkur í samstarfi við leikfélag NFS, Vox Arena, hóf sýningar á um síðustu helgi. Eftir metaðsókn og frábæra leiksýningu „Fyrsti kossinn“ fyrr í vetur var ekki auðvelt að mæta með aðra sýningu strax á eftir og það með reynsluminni leikurum úr Fjölbraut og öðrum framhaldsskólum. En það tókst. Og maður fær gæsahúð.
Leikhópurinn samanstendur af átján krökkum á framhaldsskólaaldri sem hafa mismikla reynslu í leiklist, söng og dansi. Þau takast á við mikla áskorun að sýna þennan heimsþekkta söngleik sem sýndur var í bíóhúsum fyrir nokkrum áratugum síðan þar sem John Travolta og Olivia Newton-John léku aðalhlutverkin og hlutu heimsfrægð fyrir. Fyrir miðaldra (frétta)mann sem þetta skrifar er óhætt að segja að minningarnar hafi komið sterkar upp í hugann með slatta af gæsahúð með frúnna sér við hlið. Jú, við dönsuðum við mörg þessara laga þegar við vorum ung.
Unga fólkið okkar í sýningunni syngur, dansar og leikur af miklum eldmóði. Það er mikill kraftur í sýningunni og sést vel í leik þeirra. Þau syngja öll helstu lögin sem slógu í gegn í söngleiknum á sínum tíma með íslenskum texta. Sex manna hljómsveit leikur alla tónlist og það gefur sýningunni skemmtilegan blæ. Fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var á sýningunni og greindi mjög skemmtilega tóna í saxafón sem ungur maður blés í en sagði hljómsveitina alla standa sig mjög vel. Það hefði örugglega verið hægt að fá undirleik á annan hátt en þetta er miklu skemmtilegra og meira alvöru og sýnir um leið hvað það er mikið af hæfileikaríku fólki á Suðurnesjum.
Sýningin er mjög lifandi og skemmtileg og heldur manni við efnið allan tímann. Öll svo flott. Hér verður ekki farið í einstaka leikdóma enda heildin sem gefur sýningunni gæði. Það er þó freistandi að gefa einhverjum auka stjörnu fyrir leik sem mörg þeirra ættu skilið en við splæsum henni á á þau Margréti Örnu Ágústsdóttur og Róbert Andra Drzymkowski.
Tónlistarstjóri er Sigurður Smári Hansson sem hefur verið virkur meðlimur Leikfélags Keflavíkur í mörg ár og er jafnframt formaður þess. Hann er líka einn sexmenninga í hljómsveitinni. Dansinn skipar stóran sess á sviðinu í Frumleikhúsinu en danshöfundur sýningarinnar er Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld og er þetta frumraun hennar sem danshöfundur. Leikstjórn er í höndum Brynju Ýrar Júlíusdóttur en þetta er í annað skipti sem hún leikstýrir sýningu hjá Vox Arena en hún leikstýrði einnig Burlesque árið 2018 sem Vox Arena setti upp. Þá var hún annar tveggja höfunda Fyrsta kossins sem Leikfélag Keflavíkur var að ljúka sýningum á. Brynja er greinilega með þetta og hún fær líka auka stjörnu fyrir sitt framlag í Frumleikhúsinu í vetur.
Lokaorðin fara í hvatningu til Suðurnesjamanna að fjölmenna í Frumleikhúsið. Það er frábært að sjá unga fólkið okkar fara á kostum og ekki ólíklegt að frammistaða þeirra eigi eftir að skila þeim lengra á leiksviðinu eða í tónlist.
Páll Ketilsson
- Sjáið myndasafn neðar á síðunni.