Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fyrstu verk að koma þessu í gang
Sunnudagur 24. nóvember 2013 kl. 08:00

Fyrstu verk að koma þessu í gang

Tilhlökkun hjá framkvæmdastjóra Hljómahallarinnar.

„Ég er mjög spenntur og hlakka til að takast á við þetta. Er heimamaður og hef ánægju af því að gera eitthvað gott fyrir bæinn,“ segir Tómas Viktor Young sem fyrir skömmu var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Hljómahallarinnar. Hann segir að fyrstu verk hans verði að koma þessu öllu í gang því það sé hægara sagt en gert. Að mörgu sé að hyggja, t.d. að búa til heimasíðu, fara á fullt í markaðssetningu og fá enn fleiri muni í Poppminjasafnið.

Tónlist og ferðamál tengjast mikið

Auk Tómasar sóttu 26 manns um stöðuna og einn dró umsókn sína til baka. Af þessum umsækjendum voru tíu kallaðir í viðtal og að endingu voru tveir, auk Tómasar, einnig kallaðir í seinna viðtal. „Það gekk út á að undirbúa og vera með kynningu þar sem ég útskýrði hugmyndir mínar. Ætli það hafi ekki bara gengið vel hjá mér,“ segir Tómas brosandi. Hann fékk ungur áhuga á tónlist og hóf nám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 9 ára gamall og varð fljótt virkur í tónlistarlífi bæjarfélagsins. Í lokaverkefnum í háskólanámi sínu tengdi Tómas saman tónlist, viðskipti, ferðamál og markaðssetningu og segir það hafa verið góðan grunn fyrir bransann. „Tónlistarhátíðir tengjast nefnilega ferðamálum heilmikið. Það þarf að semja upp pakkaferðir og ýmislegt annað.“

Með víðtæka reynslu af hátíðum

Tómas hefur komið að ýmsum stórum viðburðum, m.a. stóð hann á bak við ATP (All Tomorrow's Parties) tónlistarhátíðina sem haldin var á Ásbrú síðastlitið sumar. Fjöldi erlendra og innlendra hljómsveita kom fram og skemmti á þriðja þúsund gestum. Hann hefur einnig verið tengiliður Íslands við Hróarskelduhátíðina undanfarin 14 ár og unnið lengi að Iceland Airwaves hátíðinni. Undanfarin fjögur ár hefur Tómas unnið hjá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, ÚTON, þar sem hann hefur séð um fræðslu, fjármál, kynningarmál og ýmsa ráðgjöf. Tómas tekur við nýja starfinu í desember. „Ég vona að starfsemi Hljómahallarinnar hefjist á fyrstu mánuðum næsta árs en vil annars lítið gefa upp um mögulega dagskrá eða viðburði. Það er svo margt annað um að hugsa áður,“ segir Tómas að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024