Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fyrstu tónleikar á nýtt orgel Grindavíkurkirkju
Fimmtudagur 4. október 2007 kl. 09:51

Fyrstu tónleikar á nýtt orgel Grindavíkurkirkju

Friðrik Vignir Stefánsson organisti heldur tónleika í Grindavík sunnudaginn 7. október nk. kl. 17.00 þar sem hann leikur á nývígt orgel Grindavíkurkirkju og eru þetta fyrstu tónleikarnir á orgelið.
 
Friðrik Vignir Stefánsson er fæddur á Akranesi 1962.  Hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akranesi 1983 og einleikaraprófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1987.  Kennarar hans á orgel voru Haukur Guðlaugsson, Fríða Lárusdóttir og Hörður Áskelsson. Veturinn 2005-2006 var Friðrik Vignir við orgelnám í Konunglega danska tónlistarháskólanum, þar sem kennari hans var Lasse Ewerlöf. Á árunum 1988-2005 var  Friðrik Vignir organisti og kórstjóri við Grundarfjarðarkirkju, sem og skólastjóri Tónlistarskóla Grundarfjarðar.  Hann leysti af sl. vetur organista Grindavíkurkirkju og er nú organisti Seltjarnarneskirkju. Friðrik Vignir hefur á síðustu árum haldið fjölda orgeltónleika bæði hérlendis og erlendis.
 
Á efnisskrá Friðriks Vignis eru orgelverk eftir J.S.Bach, Buxtehude, Boëllmann og fleiri tónskáld.

Hið nýja orgel í Grindavíkurkirkju var vígt sl. sunnudag en það er smíðað af Björgvini Tómassyni, orgelsmið og með þeim stærri á landinu og það stærsta á Suðurnesjum. Orgelið er 25 radda pípuorgel með tveimur hljóðborðum og pedal. Það hefur 1502 pípur, minnsta pípan er 9 mm á lengd en sú stærsta um 2,5 m á lengd. Orgelhúsið er smíðaða úr Oragon pine. Orgelið gjörbreytir möguleikum til tónleikahalds í Grindavík.

Tónleikar Friðriks Vignis hefjast sem fyrr segir kl. 17 og eru allir boðnir velkomnir og verður leitað eftir frjálsu framlagi í orgelsjóð kirkjunnar.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024