Fyrstu plötu Más fagnað með útgáfutónleikum í Stapa
Már Gunnarsson heldur veglega útgáfutónleika í Stapa þann 12 apríl næstkomandi. Með honum á sviðinu verður sjö manna hljómsveit, aðallega skipuð af færustu hljóðfæraleikurum Póllands sem gera sér ferð til Íslands fyrir þetta tilefni.
Ein þekktasta poppsöngkona Póllands, Natalia Przybysz, mun mæta og taka þátt í að gera þetta kvöld ógleymilegt. Már kynntist Nataliu þegar hann tók þátt í risastórum tónleikum í Póllandi á síðasta ári sem sýndir voru í sjónvarpsútsendingu sem náði til 32 milljóna manna. Einnig koma fram Villi Naglbítur, Ísold Wilberg, Ívar Daníels og Gísli Helgason fram á tónleikunum.
Már og Natalia.
Már hefur þrátt fyrir ungan aldur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir lagasmíðar, píanóspil ,söng og velgengni í sundi. Sumarið 2018 flaug Már til Póllands til þess að taka upp sína fyrstu plötu sem nefnist Söngur fuglsins. Útsetjarinn Hadrian Tabecki stjórnaði upptökum og lagútsetningum. Má að auki nefna að Hadrian er einn eftirsóttasti útsetjari þar í landi. Öll lögin af plötunni eru samin af Má, flestir textarnir eru eftir Tómas Eyjólfsson. Einnig koma að textagerðinni Villi Naglbítur, Már og Ísold.
Á tónleikunum verður farið yfir lögin af plötunni auk valinna þekktra laga. Má þar nefna kvöldsiglingu en hver er ekki betri að spila það en höfundurinn sjálfur Gísli Helgason.
Tónleikarnir 12. apríl hefjast kl. 20 og standa í um tvær klukkustundir. Við hlökkum mikið til og vonumst til að sjá sem flesta.