Fyrstu páskarnir á Íslandi í yfir fimmtán ár
Elva Sif Grétarsdóttir og fjölskylda ætluðu sér aðeins að eyða síðasta sumri á Íslandi – þau eru hér enn
Elva Sif Grétarsdóttir og fjölskylda búa bæði á Spáni og Íslandi. Hún er gift Victor Rodriguez Lozano, spænskum listamanni, og þau eiga þrjár skvísur sem eru fjórtán ára, tíu ára og fjögurra ára.
„Við komum til landsins í maí 2020 til þess að eyða sumrinu og erum hér enn þar sem erfitt var að ferðast á milli með þrjú börn. Ég starfa sem forfallakennari í Heiðarskóla og svo er ég heimavinnandi með þrjár stelpur sem eru líka í skóla frá Spáni – nóg að gera á mínum bæ.“
– Hvernig ætlar þú að verja páskunum, eru breytt plön?
„Plönin eru ósköp einföld, vera með fjölskyldunni og borða góðan mat. Höfum ekki verið á páskunum á Íslandi í meira en fimmtán ár þannig að það verður gott að maula á íslensku páskaeggi og lesa góða bók.“
– Eru fastar hefðir hjá þér um páskana?
„Felum alltaf páskaeggin og svo er leitað á páskadag.“
– Páskaeggið þitt?
„Ég borða nú yfirleitt afganga af eggjum hjá stelpunum mínum en mér finnst botninn alltaf bestur. Ef ég myndi kaupa mér páskaegg þá yrði það líklega Trompegg eða Draumaegg.“
– Uppáhaldsmálsháttur?
„Margur er knár þótt hann sé smár.“
– Hvað verður í páskamatinn?
„Ætlum að grilla á föstudaginn langa og svo er stefnan að elda hamborgarhrygg í fyrsta sinn.“
– Ertu búin að fara á gosstöðvar og ef hvernig var upplifunin?
„Já, ég er búin að fara. Stórfengleg upplifun og eitthvað sem ég sé ekki eftir að hafa skoðað – en ég efa að ég fari aftur, kannski í sumar ef enn gýs og taka þá stelpurnar mínar með.“
– Hvað viltu segja nú þegar nýjustu takmarkanir voru settar vegna Covid-19?
„Mér lýst vel á þær, taka á þessu sem fyrst og þá dregst þetta ekki á langinn. Ég held að það sé jákvætt að setja þessar hömlur fyrir páskana þar sem annars hefði margt fólki verið að hittast. Ferming riðlaðist að vísu aðeins hjá okkur en það er bara leyst.“