Fyrstu Keilisnemarnir útskrifast úr háskóla
Páll Valur Björnsson er Vopnfirðingur sem flutti til Suðurnesja 1981. Hingað kom hann á vertíð og náði að festa hér rætur. Frá 1987 hefur Páll Valur búið í Grindavík ef undan er skilið eitt og hálft ár í Danmörku. Hann hefur að eigin sögn alltaf verið verkamaður og unnið í fiski og ýmis önnur störf, m.a. á Fiskmarkaði Suðurnesja í 11 ár og kunni vel við það. Árið 2006 fór Páll Valur að starfa sem öryggisvörður á Keflavíkurflugvelli. Þegar hann sá svo auglýsingu frá Keili árið 2007 ákvað hann að stökkva á tækifærið.
Páll Valur segir að það hafi alltaf verið gamall draumur að læra. Hann hafi hætt í fjölbrautaskóla 16 ára gamall eftir aðeins eina önn en það hafi hins vegar blundað í honum alla tíð að læra og verða eitthvað.
„Ég var baldinn og hress þegar ég var yngri og spilaði fótbolta með Grindavík í mörg ár og vann einnig mikið. Þrátt fyrir það að hafa haft nóg fyrir stafni hafi draumurinn um að setjast á skólabekk alltaf blundað með honum. Þegar ég sá auglýsingu um opinn dag hér hjá Keili í maí 2007 ákvað ég að skella mér. Þegar ég kom á kynninguna var hér ótrúlegur fjöldi fólks og þá strax var ég ákveðinn í að fara í nám hérna og ég sé ekki eftir því“.
Stærsta skrefið í lífinu
„Þetta var stórt skref fyrir mig í mínu lífi, eitt stærsta skref sem ég hef tekið að ákveða að fara í nám hérna,“ segir Páll Valur sem segist þó hafa fengið 100% stuðning heiman frá sér. Eiginkona Páls er háskólagengin. Tvær dætur hans hafa lokið við eða eru að ljúka stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Fyrsta árið í Keili var strembið en samt alveg æðislegt. Samstaðan var svo mikil hérna. Þetta er svo frábært tækifæri fyrir fólk eins og mig, vera kominn yfir fertugt og láta drauminn rætast og fara að læra. Þarna kom einmitt það tækifæri sem ég þurfti. Ég hafði oft verið að hugsa um að fara í fjölbraut eða menntaskóla en það voru fjögur ár, svo það fældi mann frá. Ég stökk hins vegar á þetta tækifæri og fór í frumgreinadeildina við Keili, sem var enska, íslenska, stærðfræði, mannkynssaga og félagsfræði, þessar hefðbundnu frumgreinar sem maður verður að taka til að komast inn í háskólann. Þetta nám var tekið á einu ári. Héðan fór ég í Háskóla Íslands í stjórnmálafræði haustið 2008. Ég var bara eina önn í stjórnmálafræðinni og skipti þá yfir í menntavísindasvið og fór þar í grunnskólakennaranám og hef verið í því þrjú síðustu ár og er að útskrifast nú í vor sem kennari,“ segir Páll Valur.
Ljómi yfir kennarastarfinu
„Ég hafði alla tíð haft mikinn áhuga á stjórnmálum og var alltaf ákveðinn í því að ef ég færi að læra, þá færi ég í stjórmálafræði. Það blundaði líka í mér að verða kennari vegna þess að margt eftirminnilegasta fólkið í lífinu eru kennarar frá því maður var yngri. Mér finnst alltaf vera ljómi yfir kennarastarfinu, það er svo göfugt starf. Mér finnst það svo mikilvægt starf í þjóðfélaginu að vera kennari. Það var ekki erfið ákvörðun að skipta yfir í kennsluna og ég sé ekki eftir því“.
Páll Valur segist hafa farið í að læra að vera samfélagsfræðikennari þar sem lögð er áhersla á þjóðfélagsfræði, samfélagið og heimsspeki.
Hann segir að sá grunnur sem hann fékk í Keili hafi komið honum mjög vel þegar hann kom inn í Háskóla Íslands. Það hjálpi fólki mikið að fá allar þær undirbúningsgreinar sem boðið var upp á í Keili. Páll Valur segir samstöðu nemenda hafa verið frábæra og það hafi nýst inn í háskólanámið.
- Að vera kominn yfir fertugt og skella sér í nám. Er það ekkert vandamál?
„Jú, þetta var svolítið erfitt. Ég hef alltaf haft gaman af því að vinna og unnið mikið, m.a. erfiðisvinnu og alla mína tíð í fiski meira og minna. Þegar ég var að vinna á fiskmarkaðnum voru gríðarlegar tarnir og maður vanur því að vinna mikið. Þegar maður er kominn að fertugu þá er maður búinn að koma sér upp þægindahring. Börnin orðin nánast fullorðin. Að rífa sig út úr þessu var mjög eriftt og að þurfa að fara að nota hausinn og fara að hugsa og læra - í jákvæðri merkingu,“ segir Páll Valur og hlær. Hann segir námið hafa verið strembið en eftirá hafi þetta verið gaman.
„Þetta er mikil áskorun. Námið hér í Keili opnaði fyrir manni nýjan heim og maður varð strax miklu víðsýnni og áttaði sig á hugtakinu mennt er máttur“.
Páll Valur segir að árið hjá Keili hafi verið framar hans bestu væntingum. Á þessum tíma hafi skólinn verið í kirkjunni á Ásbrú og þar hafi verið þröngt um mannskapinn. Það hafi hins vegar verið af því góða, því það hafi þjappað saman hópnum.
„Samstaðan í hópnum var ótrúlega góð og hér er frábært starfsfólk, alveg einstakt og hjálplegt og það hafði mikið að segja hvað þetta gekk allt saman vel“.
Mikilvægar stofnanir
Skólarnir á Íslandi eru gríðarlega mikilvægar stofnanir sem þarf að hlúa vel að. Þarna er verið að búa börnin undir framtíðina. Páll Valur sagðist hafa farið hokinn af reynslu úr lífinu inn í skólakerfið og sé nú að útskrifast og ætli fullur reynslu inn í skólakerfið til að mennta ungmenni.
Í gegnum störf sín í bæjarpólitíkinni í Grindavík er Páll Valur í stýrihópi um aukna menntun á Suðurnesjum, enda segist hann hafa mikinn áhuga á menntamálum á Suðurnesjum og í stýrihópnum sé hann að starfa með reynsluboltum í menntamálum á Suðurnesjum og það sé því lærdómsríkt að taka þátt í þessu starfi. Hann segist koma með sýn hins almenna borgara inn í starfið. Páll Valur segir að Suðurnes hafi upp á svo gríðarlega mikið að bjóða.
„Ef við aukum menntum og stöðvum þetta gríðarlega brottfall úr skólum, þá séu Suðurnesjamenn í góðum málum, enda hafi Suðurnes allt til að bera. Hér litaðist allt áður af hernum og sjómennskunni. Þetta sé hins vegar að breytast og því þurfi Suðurnesjamenn að snúa bökum saman og rífa upp ástandið í sameiningu. Svæðið okkar er einstakt, hvort sem það er í ferðaþjónustu eða öðru. Ég lít björtum augum til framtíðarinnar á Suðurnesjum, hvort sem það er í skólamálum eða öðru. Þær hugmyndir sem eiga eftir að koma fram á næstunni frá stýrihópnum eru gríðarlega spennandi og eiga eftir að vekja eftirtekt,“ segir Páll Valur Björnsson, verðandi grunnskólakennari í samtali við blaðið.