Fyrstu flugvallartankarnir hverfa
Voru dregnir sjóleiðis upp í Hvalfjörð
Gamla fréttin 15. nóvember 1984
Í allt sumar hefur staðið yfir undirbúningur að brottflutningi fyrstu tveggja olíutankanna sem staðið hafa innan flugvallargirðingar gegnt Háaleiti í Keflavík. Jafnhliða undirbúningnum var flugvallargirðingin færð ofar í heiðina, langt upp fyrir Móahverfi í Njarðvík. Er nú þannig gengið frá girðingunni að lítið mál er að koma tönkum yfir hana, þó fleiri verði fjarlægðir, sem vonandi verður áður en langt um líður.
Þó tankar þessir væru mikil ferlíki tókst vel að koma þeim niður að Njarðvíkurbryggju, eftir að nokkur umferðarmerki höfðu verið fjarlægð og ruddur hafði verið sérstakur vegur til þessara flutninga. Þó var oft ansi þröngt milli tankanna og húsa við þær götur sem þeir voru fluttir eftir.
Eftir nokkurt bras tókst að sjósetja báða tankana á sunnudag í Njarðvíkurhöfn með aðstoð þriggja öflugra krana og síðan voru þeir dregnir upp í Hvalfjörð af olíuskipinu Bláfelli, en þar mun Olíufélagið nota þá áfram. En látum myndirnar tala sínu máli, því þær segja meira en orð.
- epj./pket.