Fyrsti sveitamarkaður Hlöðunnar tókst vel
Fyrsti sveitamarkaður Hlöðunnar í Vogum fór fram síðastliðinn laugardag og heppnaðist afar vel. Fjöldi fólks heimsótti markaðinn og gerði góð kaup enda úrvalið mikið.
Veðrið lék við gesti og gerðu Suðurnesjamenn jafnt sem nágrannar af höfuðborgarsvæðinu sér glaðan dag í Vogunum.
Vinningshafi í keppninni um bragðbestu sultuna var Kolbrún Dagbjört Sigurðardóttir en hún bauð upp á rifsberjasultu með vanillu. Júlía Gunnarsdóttir heillaði einnig dómnefndina með rabarbarasultunni sinni.
Jón Gestur Ben Birgisson hreppti verðlaunin fyrir skrýtnustu kartöfluna en hann var yngsti sölumaðurinn á markaðnum aðeins níu ára gamall.
Hlaðan og aðrir þeir sem stóðu að markaðnum eru himinlifandi með viðtökurnar og hafa ákveðið að bjóða upp á annan markað á aðventunni þar sem boðið verður upp á ýmislegt jólalegt, bæði mat og handverk.