Fyrsti kossinn úr Frumleikhúsinu í Þjóðleikhúsið
Söngleikurinn „Fyrsti kossinn“ sem Leikfélag Keflavíkur frumsýndi sl. haust var nýverið valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins og verður sett á svið Þjóðleikhússins, eins og greint var frá í Víkurfréttum á dögunum.
Þau Brynja Ýr Júlíusdóttir og Guðlaugur Ómar Guðmundsson sömdu verkið sem fjallar um unga tónlistarmenn, hljómsveitarlífið, ástir, gleði og sorg. Leikstjóri var hinn þekkti leikari og Spaugstofumaður Karl Ágúst Úlfsson og dóttir hans, Brynhildur Karlsdóttir samdi dansana. Sýningin var samin til heiðurs tónlistarmanninum og Keflvíkingnum Rúnari Júlíussyni og lög sýningarinnar tengjast honum öll.
Verkið var afar vel sótt og fékk frábæra dóma svo ekki kom á óvart að það yrði fyrir valinu hjá dómnefnd sem ár hvert velur athyglisverðustu sýningu áhugaleikfélaga.
Nú er komið að sýningunum á fjölum Þjóðleikhússins. Miðasala er hafin á TIX.IS og fer el af stað. Sýningarnar verða þrjár að þessu sinni, fimmtudaginn 9. júní kl.20.00 og föstudaginn 10. júní kl.18.00 og 20.00. Suðurnesjamenn sem ekki hafa enn séð þessa frábæru sýningu eru hvattir til að skella sér í Kassann hjá Þjóðleikhúsinu og eiga skemmtilega og eftirminnilega kvöldstund.